Fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 14:53:35 (3625)

1996-03-06 14:53:35# 120. lþ. 102.11 fundur 355. mál: #A fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala# (heildarlög) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[14:53]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessar athugasemdir. Ég tel að það sé ástæða til að fara að skoða þessa Samkeppnisstofnun. Hún er farin að haga sér eins og hún sé yfirstofnun í þessu þjóðfélagi og jafnvel yfir Alþingi og ríkisstjórninni. Ég held því að það þurfi að kíkja aðeins á það mál, hvort það er í raun þannig að hún sé samkvæmt stjórnarskrá yfir Alþingi, Hæstarétti og ríkisstjórn og öllum hér. Mér finnst því lítil ástæða til þess að taka sérstaklega mark á ábendingum hennar í þessu efni og legg til að hv. allshn. velti því fyrir sér hvort ákvæðið um 2% hámarkssöluþóknun í fasteignasölu fái ekki bara að standa áfram.

Ég heyrði hæstv. ráðherra ekki segja neitt um þær áhyggjur mínar að með þessu væri verið að takmarka frelsi fólks til þess að skipta á eignum, kaupa eignir og selja á eigin vegum og án þess að spyrja fasteignasala alltaf um leyfi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að viðhorf ráðherra í þeim efnum liggi fyrir vegna þess að þrátt fyrir allt er hér verið að auka réttindi fasteignasala og skyldur þeirra líka. Það má ekki ganga of langt í því þannig að ég endurtek þá spurningu mína.