Læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:11:18 (3631)

1996-03-06 15:11:18# 120. lþ. 102.91 fundur 211#B læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:11]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, Kristínu Ástgeirsdóttur, fyrir að taka þetta mál á dagskrá því að heilsugæslan, frumþjónustan í heilbrigðiskerfinu, er í uppnámi eins og menn vita. Þorri lækna er búinn að segja upp störfum og hefur nánast ekkert heyrst um það hvernig eigi að leysa þessa deilu. Sama gildir um læknavaktina sem heilsugæslulæknar í Reykjavík skiptast á um að sinna. Hún er nátengd uppsögnum heilsugæslulækna og því hvernig barnalæknar hafa komið inn í þessa vaktþjónustu.

Þótt samningurinn við Læknavaktina hafi runnið út um mánaðamótin, hafa þeir lýst því yfir að þeir munu sinna henni til 1. maí. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þessir menn sinni þjónustunni án þess að vera á nokkrum samningi og það til lengdar. Íbúar í Reykjavík eiga kröfu á að vita hvernig þessari þjónustu muni verða háttað á næstunni. Fólkið þarf að treysta á þessa þjónustu og ég get ekki heyrt að það komi nokkurs staðar fram í svari hæstv. ráðherra hvaða hugmyndir er verið að ræða. Hæstv. ráðherra talar um að viðræður séu í gangi, en það eru engar upplýsingar um það hvað menn eru að reifa í þessum viðræðum, engin svör.

Það kom einnig fram í máli ráðherrans að það væri verið að ræða breytta verkaskiptingu. Ég tel persónulega að það væri þörf á því að breyta verkaskiptingu heilsugæslunnar og gera hana sjálfstæðari, en eins og komið hefur fram eru málefni bæði læknavaktarinnar og heilsugæslunnar samtengd og þessa deilu verður að leysa á næstu vikum. Það eru tveir mánuðir til stefnu og það er krafa íbúanna í Reykjavík að þessi mál verði leyst. Það verður að létta af óvissunni um þessi mál, það verða að koma fram einhverjar upplýsingar um það hvað menn hyggjast gera í þessu. Enn hafa ekki fengist nein svör um það. Ég vona að þau fáist síðar í ræðu hæstv. ráðherra.