Læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:16:26 (3633)

1996-03-06 15:16:26# 120. lþ. 102.91 fundur 211#B læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:16]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Jóni Kristjánssyni, sem ætla mætti að væri varaheilbrigðisráðherra því að hann siglir jafnan í kjölfar hæstv. heilbrrh. í þessum umræðum, rataðist satt á munn þegar hann sagði að við leystum ekki þessi mál utan dagskrár í dag. Hitt er annað mál, herra forseti, að í máli hans fólst lausn á þessu máli. Hv. þm. sagði að hann væri þeirrar skoðunar að það væri heilsugæslan sem ætti að sjá um grunnþjónustuna, en það er nákvæmlega það sem skortir á að hæstv. heilbrrh. láti koma til framkvæmdar. Deilan snýst um það, herra forseti, hversu langt sérfræðingarnir eiga að seilast inn á verksvið heilsugæslulæknanna. Um það snýst þessi deila. Eins og hæstv. heilbrrh. hefur sagt í fjölmiðlum, er rót þessa vandamáls sú að á síðustu tíu til tólf árum hafa komið fleiri sérfræðingar hingað til lands en raunverulega er þörf fyrir. Það er eðlilegt og samkvæmt lögmálum markaðarins að þeir reyna að finna sér útrás á einhverjum nýjum sviðum og þeir hafa í vaxandi mæli farið inn á svið heilsugæslulæknanna, heimilislæknanna. Það er einmitt það sem þeir eiga ekki að gera, lögum samkvæmt. Það sem heilsugæslulæknarnir hafa verið að segja er: Ráðherrann þarf að taka af skarið. Og hvernig hefur ráðherrann tekið af skarið?

Herra forseti. Í fjölmiðlum hefur hún sagt að þetta hangi saman við heildarlausn og þegar hún hefur verið spurð hvenær von sé á þessari heildarlausn, hvort það verði innan skamms, hefur hæstv. ráðherra sagt: Það er ekki hægt að tímasetja það á nokkurn hátt. Hæstv. ráðherra hefur með öðrum orðum sagt að hún viti ekki hvenær þessi deila verður til lykta leidd og á meðan vofir yfir að 90% af öllum heilsugæslulæknum á landsbyggðinni hætti störfum innan tveggja mánaða. Hæstv. ráðherra hefur ekki farið að ráðum hv. þm. og varaheilbrigðisráðherra, Jóns Kristjánssonar, og látið lögin koma til framkvæmda.

Herra forseti. Mig langar líka að varpa fram spurningu til hæstv. heilbrrh. Hún sagði um daginn í sjónvarpinu að það væri hagkvæmast og best að beina fólki í grunnþjónustuna, sem er heilsugæslan samkvæmt lögum þessa lands. Er hæstv. heilbrrh. með þessum orðum að taka undir stefnu Alþfl. um að það beri þrátt fyrir allt og þrátt fyrir hennar fyrri orð að taka upp tilvísunarkerfið?