Rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:31:22 (3639)

1996-03-06 15:31:22# 120. lþ. 102.92 fundur 212#B rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg# (umræður utan dagskrár), RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:31]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár vegna meðferðarheimilis barna við Kleifarveg og þeirrar fréttar að Sjúkrahús Reykjavíkur muni hætta rekstri heimilisins í sparnaðarskyni frá 1. júlí nk. Stjórn sjúkrahússins leggur áherslu á að börnunum sem dvelja á meðferðarheimilinu verði tryggð áframhaldandi þjónusta og sé það á ábyrgð félagsmála- og fræðsluyfirvalda.

Virðulegi forseti. Fyrir örfáum vikum mælti ég fyrir tillögu í þessum þingsal um að skipaður yrði starfshópur til að gera úttekt á og skilgreina hvaða stofnanir og verkefni á sviði heilbrrn. séu í raun félagsleg verkefni og að unnin yrði áætlun um að flytja þau milli ráðuneyta. Um hana varð verulega góð og málefnaleg umfjöllun í þessum þingsal. Markmið slíkrar tillögu var að afstýra því sem hefur verið að gerast, þ.e. að þegar niðurskurðarhnífnum er beitt í heilbrigðiskerfinu er ráðist að félagslegum úrræðum og helst að þeim sem eiga sér ekki málsvara í kerfinu, öldruðum, börnum, öryrkjum.

Skemmst er að minnast ákvörðunar um að loka Bjargi og óttans og kvíðans sem sú málsmeðferð öll vakti með vistmönnum heimilisins og harðrar gagnrýni samfélagsins á það mál. Og enn er höggvið. Það er ekki farin sú leið sem ég var að mæla fyrir. Það er farin sú leið að ákveða fyrst að hætta rekstri og þar með sé málið komið á annarra hendur. Þetta eru óþolandi vinnubrögð og til þess eins fallin að vekja óvissu um hag barnanna og ótta og kvíða aðstandenda.

Ég lít svo á, virðulegi forseti, að Sjúkrahús Reykjavíkur sé þvingað til að taka ákvörðun um að hætta þessum rekstri. Þegar ofan í langvarandi sparnaðar- og aðhaldsaðgerðir á sjúkrahúsinu er gerð krafa um að á fjórða hundrað millj. kr. verði skornar niður í rekstri er eðlilegt að kannað sé hvaða deildum verði hreinlega lokað. Það er þá sem fjarlægari verkefni, félagslegu úrræðin, verkefni sem mönnum finnst að aðrir eigi að sjá um, lenda undir hnífnum. Þetta er óásættanleg staða.

Á meðferðarheimilinu við Kleifarveg eru átta börn í vistun. Helmingur þeirra barna er þar dvelja býr þar og börnin eiga þarna sitt heimili. Dvalartími barna á þessum stað mælist í árum, ekki mánuðum, í árum. Þetta eru börn sem hafa átt í miklum erfiðleikum og þurfa á aðstoð samfélagsins að halda. Þeirra vegna vel ég að hafa ekki frekari orð um aðstæður þeirra.

Það sýnist rökrétt að heimili sem þetta sé rekið samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna eins og meðferðarheimili sem rekin eru á vegum Barnaverndarstofu og félmrn. Því má þó ekki gleyma að það eru sérfræðingar sem leggja börn inn á meðferðarheimilið við Kleifarveg, þegar þau eru orðin svo illa stödd að önnur úrræði eru ekki talin duga. Að svo komnu máli legg ég ekki mat á rekstrarformið en bendi á að ef heimilið verður flutt yfir til félmrn. erum við enn á ný að flytja útgjöld á milli vasa á sömu brókinni þar sem ríkið borgar brúsann í báðum tilfellum. Hér er um að ræða dæmalausa ,,ekki-benda-á-mig``-pólitík sem er að verða vörumerki þessarar ríkisstjórnar. Sparað verður í útgjöldum heilbrrn. en útgjöld aukin hjá félmrn. þó breytt rekstrarform kynni að hafa einhver áhrif á fjárhæðir. Eitt er ljóst, að hér erum við að tala um heimili sem fellur undir úrræði á vegum ríkisins. Fram hjá því verður ekki komist.

Virðulegi forseti. Við alþingismenn verðum að krefjast breyttra vinnubragða, kalla eftir skynsemi í verklagi og að hætt verði sífelldum óttavekjandi tilkynningum. Það er augljóst mál að hér er farið öfugt í hlutina. Fyrst er ákveðið að hætta rekstri. Síðan eru hafnar könnunarviðræður um hvernig eða hvort framtíð heimilisins sé tryggð. Það er afar brýnt þegar hrófla á við rekstri sem snýr að viðkvæmum hópum að farið sé í þau mál af varúð. Boðorð númer eitt á að vera að þegar tilkynnt sé um breytingar, sé búið að ráða fram úr vanda. Í þessu tilfelli er tilkynningin fyrsta skrefið og síðan á að finna lausnirnar.

Virðulegi forseti. Surningar mínar til heilbrrh. eru þessar: Hver er undirbúningur og aðdragandi að þessari ákvörðun? Hafa átt sér stað viðræður milli heilbrrn. og félmrn. um rekstur vistheimilisins við Kleifarveg? Ætlar heilbrrh. að tryggja að börnin sem þar búa fái áframhaldandi aðstoð, að þau fái nauðsynlega og viðunandi þjónustu, að þau verði ekki send heim?