Rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:45:56 (3643)

1996-03-06 15:45:56# 120. lþ. 102.92 fundur 212#B rekstur meðferðarheimilisins við Kleifarveg# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:45]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrir að reifa þetta mál og þakka þau svör ráðherra að ekki standi til að leggja starfsemi Kleifarvegsheimilisins niður. Meðferðarheimilið við Kleifarveg var gefið Reykjavíkurborg upphaflega af Hvíta bandinu og heimilissjóði fyrir taugaveikluð börn í þeim tilgangi að hafa þar vistheimili fyrir börn sem ættu við geðræn og félagsleg vandamál að stríða eins og hér hefur komið fram. Þarna hefur verið rekið mjög merkt meðferðarheimili. Fyrst var það rekið af sálfræðideildum skóla í Reykjavík og síðan fór reksturinn undir Sjúkrahús Reykjavíkur eða geðdeild Borgarspítalans þar sem mörg þeirra barna sem þarna hafa dvalist hafa átt við verulega erfið vandamál að stríða.

Nú þegar tilkynning kemur um að Sjúkrahús Reykjavíkur hyggist hætta rekstri þessa heimilis vegna þess að þarna sé ekki um sjúkrahúsrekstur að ræða er verulega umhugsunarvert hvað verður um heimilið. Það má benda á að rekstur Kleifarvegsheimilisins er mun ódýrari en rekstur barnageðdeildarinnar. Reksturinn kostar svipað og önnur þau heimili sem heyra undir Barnaverndarstofu. Ég tel því ákaflega mikilvægt að þetta er hlutfallslega ódýrt úrræði og mikilvæg starfsemi sem þarna á sér stað. Ég fagna því að lausn sé í sjónmáli en tel að það þurfi að skoða vel hvort að núverandi rekstrarhættir þurfi að breytast ef starfsemin á að flytjast yfir á barna- og unglingageðdeildina eða tengjast henni nánar.