Sameining Vitastofnunar, Hafnamálastofnunar og Siglingamálastofnunar

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:56:48 (3647)

1996-03-06 15:56:48# 120. lþ. 102.13 fundur 357. mál: #A sameining Vitastofnunar, Hafnamálastofnunar og Siglingamálastofnunar# (frv. samgn.) frv. 7/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem vakti athygli mína þegar ég hlýddi á hið ágæta mál hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, formanns samgn., er að hér er samgn. að flytja sjálfstætt frv. Frv. er flutt vegna þess að annað stjfrv. sem fram kemur um sameiningu þriggja stofnana er svo lélegt og vinnubrögð hæstv. ráðherra sem leggur það fram eru svo léleg að samgn. sér þann kost grænstan að flytja sitt eigið sjálfstæða frv. Þegar maður ber þessi frv. saman kemur í ljós að sú vinna sem hv. samgn. hefur unnið er náttúrlega allt önnur og miklu betri en það sem kemur úr ráðuneytinu.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér þykir þetta mikill áfellisdómur yfir framkvæmdarvaldinu. Mér þykir gríðarlega slæmt að vinna að jafnmerkum málum og sameiningu ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja er skuli vera svo slæleg að þingið þurfi svo að segja semja stórfellt frv. til þess að aðlaga hin ýmsu lög að þeim breytingum sem verið er að leggja til.

Herra forseti. Ég tel að þetta sé til vansa fyrir höfunda hins upphaflega frv., ég get ekki sagt annað, en ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þá miklu vinnu sem hann og nefnd hans hafa bersýnilega lagt í málið.