Sameining Vitastofnunar, Hafnamálastofnunar og Siglingamálastofnunar

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:59:24 (3649)

1996-03-06 15:59:24# 120. lþ. 102.13 fundur 357. mál: #A sameining Vitastofnunar, Hafnamálastofnunar og Siglingamálastofnunar# (frv. samgn.) frv. 7/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. þarf sannarlega ekki að þakka mér lofið í garð hans og hv. samgn. Satt að segja spyr ég sjálfan mig hvar værum við ef við hefðum ekki samgn. fyrst að frv. sem koma frá fagráðherranum eru svo léleg svo ég noti orð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að nefndin taldi skynsamlegra eftir að hafa lesið frv. ráðherrans að leggja það til hliðar og semja nýtt frv. Það er auðvitað fáheyrt þó að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson segi að það sé engin ástæða til þess áfellast framkvæmdarvaldið sökum þess. Þó verð ég að segja að þetta er í fyrsta skipti sem ég sé svona hlut gerast og það er einungis vegna hans milda og blíða eðlis og viðleitni hans til að breiða yfir misfellur sinna manna sem hann viðhefur þessi orð. Auðvitað er mjög merkilegt að þetta skuli gerast og einhvern tímann hefði fyrrverandi formaður Alþb. sagt hér: Þetta er sögulegt. Því það er auðvitað mjög merkilegt þegar ein þingnefnd ákveður að vinnan sem kemur úr ráðuneytinu sé svo léleg að frv. er bara fleygt og nefndin semur frv. sem er miklu betra að öllu leyti. Þetta er áfellisdómur yfir viðkomandi ráðherra og mér þykir leitt að það þurfti að vera hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sem felldi þann dóm, þrátt fyrir blíðlegt orðlag áðan.