Sameining Vitastofnunar, Hafnamálastofnunar og Siglingamálastofnunar

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 16:03:22 (3652)

1996-03-06 16:03:22# 120. lþ. 102.13 fundur 357. mál: #A sameining Vitastofnunar, Hafnamálastofnunar og Siglingamálastofnunar# (frv. samgn.) frv. 7/1996, Frsm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[16:03]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að sjálfsagt mundi þessi umræða fremur eiga heima undir næsta dagskrárlið sem er hin efnislega umræða um sameiningu þessara tveggja stofnana. En það er sjálfsagt að svara spurningu hv. þm. Á þetta mál hefur mjög rækilega verið litið. Það hefur verið lögð á það mikil áhersla við undirbúning málsins að hafa gott samráð við starfsfólk beggja stofnananna. Fulltrúar þeirra komu á fund samgn. og engum andmælum var hreyft við þeirri aðferð sem hér er lögð til.

Eins og hv. þm. getur séð í þeirri brtt. sem við leggjum fram við næsta frv., er gert ráð fyrir því að þessi lög öðlist þegar gildi en framkvæmdin verði hins vegar ekki fyrr en 1. okt. Það er hugsað beinlínis til þess að skapa sem bestan og liðlegastan umþóttunartíma fyrir það fólk sem er að hefja störf hjá hinni nýju sameinuðu stofnun. Á margan hátt er þetta sambærilegt við stofnun Þjóðarbókhlöðunnar þegar sameinaðar voru tvær stofnanir. Það var horft mjög til þess fordæmis þegar verið var að vinna að undirbúningi þessa máls. Niðurstaða nefndarinnar varð sú, og það er eitt af því sem samgn. gerði brtt. um, að lögin öðlist þegar gildi en komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. okt. þannig að hægt sé að hefja undirbúninginn að þessari sameiningu og hann geti orðið sem liðlegastur. Til framkvæmda kemur þá ekki fyrr en 1. október svo menn hafa góðan tíma til að undirbúa sig.