Siglingastofnun Íslands

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 18:44:19 (3656)

1996-03-06 18:44:19# 120. lþ. 102.14 fundur 173. mál: #A Siglingastofnun Íslands# frv. 6/1996, GHall
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[18:44]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mál sem á langa umræðu að baki. Sjómannasamtökin hafa lengi fjallað um Siglingamálastofnun og Vita- og hafnamálastofnun og hefur sýnst sitt hverjum þar um. Ég held að ég muni það rétt að sjómannasamtökin hafi andmælt þessum hugmyndum og væri gott að fá upplýsingar um það hjá formanni samgn. hér á eftir.

Ég er ekki að draga í efa að sameining gæti orðið af hinu góða fyrir þessar tvær ríkisstofnanir. Ég hef heyrt á mæli þeirra sem hjá Siglingamálastofnun vinna að þeir telji að nú sé svo komið með starfsemi þeirra að rétt sé að mál linni og einhver lending náist. Það eru hins vegar nokkur atriði í þessu sem vekja athygli mína, bæði í frv. og greinargerðinni. Þótt verið sé að sameina stofnanir kemur berlega í ljós þegar grannt er skoðað hvernig hin ýmsu ráðuneyti koma þarna við. Er vont til þess að vita að sum ákvæði í þessu frv. eru nánast út og suður vegna þess hversu mörg ráðuneyti koma þar að málum.

[18:45]

Í 5. lið 3. gr. um verkefni Siglingamálastofnunar segir að hún eigi að annast mál er varða lög og varnir gegn mengun sjávar og reglugerðir samkvæmt þeim að því leyti sem þau varða skip og búnað þeirra samkvæmt reglum sem umhvrh. setur. Kem ég þá að því sem ég gat um áðan. Það er svo að erlendis eru mál eins og mengunarmálin á einni og sömu hendi og er það dálítið merkilegt að svona skyldi hafa tekist til er umhvrn. var sett á stofn að þessu er nánast tvískipt enda segir líka í 6. lið 3. gr. um verkefni Siglingamálastofnunar að hún eigi að annast samstarf við alþjóðastofnanir og framkvæmd alþjóðasamþykkta sem Ísland er aðili að og varða siglinga-, hafna- og vitamál. En þá er ekki getið um mengunarmál.

Vissulega er það svo að oftar en ekki eru líka alþjóðasamþykktir um mengun hafsins. Þá er það Siglingamálastofnun, þessu nýja fyrirtæki, nánast óviðkomandi. Það er umhvrn. sem á að mæta á þeim alþjóðasamkundum sem þar fara fram og útbúa reglur sem að því lúta og síðan að koma því til þessarar nýju stofnunar. Þetta allt gerir málið náttúrlega flóknara og gerir mönnum erfitt um vik að starfa undir þeim kringumstæðum að olíumengunarslys gæti gerst. Þá eru allmargir aðilar sem koma að því máli og liggur ekki endanlega ljóst fyrir hver skuli bera ábyrgðina og með hvaða hætti og hvernig skuli tekið á þeim málum. Þetta er mjög bagalegt, einkum þegar litið er til að ekki er langt síðan stórt olíuskip strandaði við Englandsstrendur og mikil olía fór í hafið. Það virðist vera að á Íslandi vanti hinn ábyrga aðila sem getur tekið af skarið og sagt á þeirri stundu sem slíkt óhapp gerist, sem ég vona að verði þó aldrei: Nú skal framkvæma. En þess í stað þarf málið að fara á milli ráðuneyta.

Í athugasemdunum við lagafrv. segir m.a. að nefnd hafi verið skipuð 1993 af samgrh. til að kanna möguleika Vita- og hafnamálastofnunar annars vegar og Sigingamálastofnunar hins vegar á samnýtingu mannafla og aðstöðu eða sameiningu þessara stofnana í eina stofnun. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í framhaldi af störfum nefndarinnar hófst vinna við endurskoðun á starfsemi Siglingamálastofnun ríkisins annars vegar og Vita- og hafnamálastofnun hins vegar þar sem talið var að ná mætti fram verulegri hagræðingu í rekstri þeirra. ... Lögð var meiri áhersla á að hraða vinnunni hjá Vita- og hafnamálastofnun og hefur ýmsum umbótaverkefnum verið hrint í framkvæmd.`` Síðan segir: ,,Nú er því heppilegur tími til að sameina þessar stofnanir í eina stofnun, Siglingastofnun Íslands. Sú reynsla sem fengist hefur hjá Vita- og hafnamálstofnun, ásamt þeirri vinnu sem lokið er fyrir Siglingamálastofnun ríkisins, kemur að góðum notum fyrir mótun stefnu og framtíðarsýnar sameinaðrar stofnunar.`` Og síðan markmiðið: ,,Langtímamarkmið með sameiningunni er hagræðing og sparnaður í rekstri samhliða markvissri þjónustu við viðskiptavini stofnunarinnar.``

Þegar einkum er litið til þess að talað er um markvissa þjónustu við viðskiptavini stofnunarinnar þá held ég að ég megi til með að staldra við og koma að orðum formanns samgn. þar sem hann talaði um að rætt hefði verið um að setja stofnuninni stjórn. Ég held að full ástæða sé til þess vegna þess að það hefur borið á góma hjá þessari ágætu Siglingamálastofnun sem er enn starfandi að þar virðist markmið og leiðir hafa á stundum farið úr böndunum og hefur siglingamálaráð sem þar hefur starfað um nokkurn tíma þá ekki dugað til. Þess vegna tel ég að það sé full ástæða til þess, vegna þess að það eru að koma að tveir hópar sem hafa sinnt hvor sínu verkefninu um langan tíma, að öðru fremur sé nauðsyn á að þessi stofnun hafi sérstaka stjórn sem geti þá stýrt hlutum þannig að vel fari því að það er vissulega nauðsynlegt í þeirri tilraunastarfsemi sem á lögfesta að þar haldist mönnum vel á verki svo að þetta verði ekki verra en það sem fyrir var ef hægt er að tala um það í þeirri merkingu.

Sameinuð stofnun hefur meira bolmagn til að hafa í þjónustu sinni þá sérhæfðu starfsmenn sem þörf er á hverju sinni og stuðla að betra upplýsingastreymi ásamt bættri nýtingu mannafla og aðstöðu. Sameining mun nýtast bæði ríkinu og viðskiptavinum stofnananna. Ég er ekki hissa á því að eftirfarandi texti skuli vera í athugasemdunum, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Siglingamálastofnun ríkisins safnar upplýsingum um sjóslys og Vita- og hafnamálastofnunin hefur umsjón með hönnum innsiglinga og innsiglingamerkja. Mörg sjóslys verða í og við innsiglingar í hafnir. Sameining stuðlar að gerð öruggari hafnarmannvirkja.``

Getur verið að allan þann tíma sem þessi tvö ríkisfyrirtæki hafa starfað hafi engin samvinna verið þar á milli? Getur það verið að Vita- og hafnamálastofnun hafi verið að hanna hafnarmannvirki og innsiglingar með þeim hætti að stórslys gætu stafað af vegna þess að þeir hafa ekki haft samband við Siglingamálastofnun sem skráir slys? Þessi texti er með slíkum eindæmum og ég er þess vegna ekki hissa á því sem ég gat um áður. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Vita- og hafnamálastofnun hefur unnið að rannsóknum á öldulagi á hafinu kringum landið og safnað upplýsingum í nærri tvo áratugi. Til að auka öryggi sjófarenda og auðvelda sjósókn hefur verið komið upp upplýsingakerfi með upphringingabúnaði um veður og sjólag þar sem 12 veðurstöðvar í vitum og annesjum senda upplýsingar um veður og 6--7 öldudufl sem gefa upp ölduhæð og öldulengd.``

Þetta er auðvitað hið besta mál. En allt í einu er þessi ágæta stofnun komin inn á starfsemi Veðurstofunnar og ruglast nú málið heldur betur. Þetta er mjög gott og þarft framtak Vita- og hafnamálastofnunar, ég ætla ekki að gera lítið úr því en þetta sýnir enn betur í hnotskurn hvernig háttað er með mál sem lúta að öryggisþáttum sæfarenda við Ísland. Hvernig í ósköpunum má það vera, eins og ég gat um áðan, að ekkert samstarf virðist hafa verið á milli þessara aðila af því að getið er um það í texta í lagafrv. að hafnarmannvirkin hafi verið það illa hönnuð af því að upplýsingar hafi ekki komið frá Siglingamálastofnun sem skráir slys á sjómönnum?

Ég gat áðan um vandamálið í sambandi við mengun og hér er komið inn enn eitt málið sem lýtur að veðurathugunum og veðurfarsupplýsingum. Svo haldið sé áfram með textann þá segir hér, með leyfi forseta, og vekur enn undrun mína: ,,Vita- og hafnamálastofnun gerir áætlanir um uppbyggingu hafna. Siglingamálastofnun ríkisins heldur skrá yfir skipaflotann og fylgist með þróun hans. Við hönnun og áætlanagerð um uppbyggingu hafna er mikilvægt að hafa góðar upplýsingar um skipaflotann og áætlaðar breytingar á honum.``

Getur verið að þessar upplýsingar frá Siglingamálastofnun hafi ekki legið fyrir hjá Vita- og hafnamálastofnun? Eru þetta einu rökin fyrir því að það er nauðsynlegt að sameina þessar stofnanir af því að upplýsingastreymið er ekkert þarna á milli? Er nauðsynlegt að sameina stofnanirnar svo að Vita- og hafnamálastofnunin viti nákvæmlega um stærð fiskiskipaflotans á hverjum tíma?

Herra forseti. Ég gat um það í upphafi að ég hefði ekki á móti því að þessi tilraun yrði gerð. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að það er í andstöðu við það að sjómenn telja öryggi sínu best borgið með því að hafa þetta óbreytt. Hins vegar hef ég heyrt það á starfsmönnum Siglingamálastofnunar að þeir telji að það ástand sem hefur verið viðloðandi um nokkuð langan tíma hvað áhrærir stofnunina sé með þeim hætti að þessi úrlausn ef svo má kalla gæti orðið til þess að styrkja stofnunina enn frekar og henni veitir líklega ekki af því.

Að lokum vildi ég segja þetta: Ég hef haldið því margsinnis fram að eðlilegra hefði verið með tilliti til þess að hafnarframkvæmdir eru komnar á þann rekspöl öðruvísi en áður var, framkvæmdir minni en voru --- og með tilliti til þess að Vegagerðin hefur þegar tekið að sér þjónustu nokkurra ferja --- að sá hluti Vita- og hafnamálastofnunar, sem heitir hafnamál, færi undir Vegagerðina en vitamálaþátturinn færi undir Landhelgisgæsluna og síðan yrðu Landhelgisgæslan og Siglingamálastofnunin sameinuð og styrkt. Það væri hinn raunhæfi kostur í málinu.

Herra forseti. Mér sýnist að með frv. sé kannski verið að stíga það spor og ég eygi þá von að einhver skynsemi sé fram undan í málinu sem muni leiða til þess að Siglingamálastofnunin verði innan ekki langs tíma sameinuð Landhelgisgæslunni.