Siglingastofnun Íslands

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 19:21:20 (3660)

1996-03-06 19:21:20# 120. lþ. 102.14 fundur 173. mál: #A Siglingastofnun Íslands# frv. 6/1996, Frsm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:21]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi umræða undirstriki fyrst og fremst það sem ég sagði í tvígang, þ.e. að þessi umræða sem verið er að hefja um það hvort ætti að setja þessari tilteknu ríkisstofnun stjórn, verðskuldar að fara fram á almennum nótum. Ég tel að það sé óeðlilegt þegar við erum að byrja að feta okkur áfram með nýja ríkisstofnun eins og þessa, sameinaða ríkisstofnun sem við ætlum veigamikið hlutverk, að taka þessa prinsippafstöðu líka. Ég tel að það sé miklu eðlilegra að við gerum það með almennum hætti og reynum þá að átta okkur á því hvernig og í hvaða tilvikum við teljum eðlilegt að tilteknum ríkisstofnunum séu settar stjórnir.

Ég er að mörgu leyti sammála því sem hv. þm. sagði í vangaveltum sínum. En um þetta verða menn að taka almenna prinsippafstöðu og reyna að vinna síðan út frá því í stað þess að gera þetta á þann tilviljanakennda hátt að þegar einhver stofnun kemur á dagskrá hér í þingsölum, eigum við að taka þá afstöðu að fjalla um hvort hún eigi að hafa sína stjórn en síðan liggur það á milli hluta og enginn skiptir sér af því hvort sambærileg stofnun að öllu öðru leyti fái stjórn eða ekki. Ég tel langeðlilegast að þessi almenna umræða hefjist. Það er að sjálfsögðu þannig að það væri þá hlutverk ríkisstjórnar hverju sinni að fjalla um þessa spurningu og ríkisstjórnarflokkanna að taka afstöðu til þess hvernig þeir vilja móta þessa stefnu. Ég svara spurningu hv. þm. þannig að það sé eðlilegast að það sé gert á vettvangi ríkisstjórna.