Siglingastofnun Íslands

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 19:23:24 (3661)

1996-03-06 19:23:24# 120. lþ. 102.14 fundur 173. mál: #A Siglingastofnun Íslands# frv. 6/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:23]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er verið að tala um sameiningu stofnana og skipulagsbreytingar á opinberum stofnunum. Mér finnst mikilvægt að fá upplýst hvernig að þessum málum verður staðið, hvort starfsmönnum sem starfa við þessar stofnanir verður sagt upp störfum eða hvort þeir verða færðir til í starfi eða hvernig menn hyggjast standa almennt að þessum málum. Í því sambandi vil ég vísa til laga nr. 95/1992. Þetta eru lög um hópuppsagnir. Í þeim segir í 1. gr., svo að ég vitni orðrétt til þeirra, með leyfi forseta:

,,Ákvæði 1.--4. gr. eiga við um uppsagnir atvinnurekenda á fastráðnum starfsmönnum af ástæðum sem ekki tengjast hverjum einstökum þeirra þegar fjöldi starfsmanna, sem sagt er upp á 30 daga tímabili, er:

a. að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa fleiri en 20 og færri en 100 starfsmenn í vinnu, ...``

Síðan er í 2. gr. þessara sömu laga vísað til samráðs sem atvinnurekendur verða að hafa í slíku tilviki. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Með samráðinu skal að minnsta kosti leita leiða til að forðast hópuppsagnir eða fækka starfsmönnum sem fyrir þeim verða og draga úr afleiðingum með hjálp félagslegra aðgerða sem hafa það meðal annars að markmiði að auðvelda tilfærslur í starfi eða endurhæfingu starfsmanna sem sagt hefur verið upp.``

Nú vil ég, hæstv. forseti, fá upplýsingar um það hvernig að þessum málum verður staðið, hvort í ráði er að segja starfsmönnum upp. Að sjálfsögðu geri ég ráð fyrir að farið verði að þeim lögum sem við búum við og samráð verði haft við trúnaðarmenn starfsmanna um hvernig staðið verði að þessum málum almennt.