Siglingastofnun Íslands

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 19:25:51 (3662)

1996-03-06 19:25:51# 120. lþ. 102.14 fundur 173. mál: #A Siglingastofnun Íslands# frv. 6/1996, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:25]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Við undirbúning þessa máls, bæði af hálfu þeirra sem skipuðu nefndina sem undirbjó frv. og af hálfu hæstv. samgrh. og enn af hálfu samgn., hefur verið lögð mikil áherslu á það að til þessara verka sé gengið af mikilli nærgætni. Það er reynt að tryggja að þessi breyting í þá átt að sameina stofnanirnar tvær gerist þannig að það valdi sem minnstri röskun fyrir starfsmenn.

Við skulum hafa það í huga að hér er verið að tala um að sameina tvær ríkisstofnanir. Hér er ekki um formbreytingu að ræða. Hér er í raun og veru um sambærilega hluti að ræða eins og áttu sér stað þegar Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafn voru sameinuð. Þess vegna var það svo að meðal breytingartillagna samgn. er ákvæði til bráðabirgða sambærilegt við það sem segir í þessum ívitnuðu lögum, með leyfi virðulegs forseta:

,,Öll störf hjá Siglingamálastofnun ríkisins og Vita- og hafnamálastofnun ríkisins (Hafnamálastofnun ríkisins og Vitastofnun Íslands) verða lögð niður frá 30. september 1996. Um rétt starfsmanna fer skv. 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, með síðari breytingum.``

Ég held að þetta svari spurningunni. Það er jafnframt eins og ég nefndi áður í umræðunni, gert ráð fyrir því að þessi lög taki gildi strax en að komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. október í haust, einmitt til að vinna að sameiningu stofnananna þannig að það valdi sem minnstri röskun fyrir starfsmennina sem eiga að vinna hjá hinni nýju stofnun. Ég held því að með þessu hafi verið reynt að koma til móts við þessi sjónarmið.