Siglingastofnun Íslands

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 19:29:04 (3664)

1996-03-06 19:29:04# 120. lþ. 102.14 fundur 173. mál: #A Siglingastofnun Íslands# frv. 6/1996, Frsm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:29]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessari spurningu get ég svarað eingöngu þannig að það hefur verið haft mjög náið samstarf við starfsmannafélögin og þar með vænti ég við trúnaðarmenn í báðum þessum stofnunum. Fulltrúar starfsmannafélaga beggja stofnananna komu á fund samgn. Alþingis, höfðu tækifæri til að tjá sig um það og hafa þeir mér vitanlega ekki gert athugasemdir við þá málsmeðferð sem hefur verið viðhöfð varðandi þetta mál. Það samráð hefur þannig að mínu mati verið tryggt.

En að öðru leyti vísa ég til þess að hér er verið að leggja til sams konar málsmeðferð og viðhöfð var þegar verið að sameina tvö bókasöfn, Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið. Sá samruni tveggja stofnana fór fram að því er ég best veit án nokkurra teljandi vandkvæða og það er nákvæmlega það sem verið er að reyna að gera með samruna þessara stofnana. Það verður engin eðlisbreyting að öðru leyti en því að þessi störf verða til í hinni nýju stofnun með sama hætti þannig að ég held að þetta verði gert eins og best verður á kosið.