Verðbréfaþing Íslands

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 19:54:41 (3670)

1996-03-06 19:54:41# 120. lþ. 102.18 fundur 101. mál: #A Verðbréfaþing Íslands# (EES-reglur) frv. 22/1996, Frsm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:54]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum og nefndaráliti frá efh.- og viðskn. við frv. til laga um breytingu á lögum nr. 11/1993, um Verðbréfaþing Íslands.

Nefndin stendur öll að breytingartillögunum sem eru á þskj. 636. Ég mun í örstuttu máli gera grein fyrir þeim.

Í 1. lið tillagnanna eru lagðar til breytingar á 2. gr. laganna þar sem bætt er inn hugtakinu ,,uppgjörskerfi``. Enn fremur eru í 1. lið lagðar til ákveðnar breytingar þar sem fram kemur að það sé hlutverk stjórnar Verðbréfaþingsins að setja reglur um uppgjör viðskipta með tilliti til fjárhagsstöðu þingaðila. Og í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að það sé hlutverk stjórnarinnar að vinna að framþróun og skilvirkni verðbréfamarkaðar.

Í 2. lið breytingartillagnanna er verið að leggja til að það séu gerðar ríkari kröfur til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra Verðbréfaþings en hingað til hefur verið.

Í 3. lið breytingartillagnanna er gert ráð fyrir því að verðbréfamiðlun sem hefur heimild til að eiga viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning geti fengið aðgang að Verðbréfaþinginu. Þetta þýðir að verðbréfamiðlanir sem uppfylla ríkari eiginfjárkröfur en almennt gerist geta átt aðild að þinginu.

Í 4. lið breytingartillagnanna er bætt við hugtakinu ,,uppboðskerfi`` eins og kom fram í 1. lið tillagnanna.

Í 5. lið breytingartillagnanna er gerð tillaga um við bætist ákvæði til bráðabirgða þannig hljóðandi, með leyfi forseta:

,,Viðskiptaráðherra skal eftir gildistöku laga þessara skipa nefnd sem vinni að heildarendurskoðun laga um Verðbréfaþing Íslands með það að meginmarkmiði að afnema einkarétt þess á verðbréfaþingsstarfsemi eigi síðar en í árslok 1997.``

Þessi tillaga, hæstv. forseti, mundi hafa mikla þýðingu fyrir framþróun viðskipta með verðbréf á íslenskum fjármagnsmarkaði.