Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 10:55:02 (3678)

1996-03-07 10:55:02# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[10:55]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alrangt hjá hv. þm. Það er ekkert sem vakir fyrir ríkisstjórninni varðandi þetta frv. annað en að það nái fram óbreytt og sé viðurkennt sem samningur á milli aðilanna. Ríkisstjórnin hefur fallist á frv. og þingflokkarnir hafa fallist á frv. Það sem hins vegar liggur einnig fyrir er að fyrir liggur frv. til laga um breytingar á lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en það er einmitt sérstakt mál sem snertir ekki þetta frv. Á því verða menn að átta sig. Það mál hefur sinn gang. En þetta snertir flutning grunnskólans frá ríkinu til sveitarfélaganna og þessum lögum verður ekki breytt nema það verði gert einhvern tímann síðar. Ekki er ég að boða breytingar á því. (ÖS: Í næstu viku.) Nei. Ég er alls ekki að tala um það. Það er alrangt. Það er grundvallaratriði í þessu máli að þetta frv. verði samþykkt og það fylgi kennurunum frá ríkinu til sveitarfélaganna og því verði ekki breytt nema einstakir þingmenn hafi frumkvæðisrétt að því eins og menn vita og ég þarf ekkert að ræða það. Það var það sem ég var að ræða um að einstakir þingmenn og einstakir ráðherrar hafa í sjálfu sér alltaf frumkvæðisrétt til þess að beita sér fyrir breytingum á frv. eða lögum en það er ekki í þessu máli. Um það er samkomulag milli allra aðila að þetta mál gangi fram með þessum hætti og þetta verði sá samningur sem fylgir kennurunum frá ríkinu til sveitarfélaganna. (ÖJ: Þetta er rangt.) Þetta er rétt. (ÖJ: Þetta er ósatt.) Þú hefur engin rök, hv. þm., til að halda því fram að þetta sé rangt. (ÖJ: Ég færi þau fram á eftir.) Þetta er samkomulagið og það liggur fyrir í þessu frv. Það er klippt og skorið og þeir menn sem eru að gera öðru skóna eru að gera þetta mál tortryggilegt af annarlegum ástæðum og eru að reyna að leggja stein í götu þess að þessar umbætur í skólamálum nái fram að ganga.