Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 10:59:17 (3680)

1996-03-07 10:59:17# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[10:59]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Málið liggur mjög einfalt og skýrt fyrir. Varðandi réttarstöðu kennaranna og hina ólíku réttarstöðu miðað við það hvort þeir verði áfram starfsmenn ríkisins eða sveitarfélaganna, þá lá það fyrir þegar menn voru að vinna að þessu samkomulagi, sem liggur til grundvallar frv., að það hafa verið uppi áform um það hjá ríkinu að breyta réttarstöðu t.d. framhaldsskólakennaranna á þann veg að æviráðningin yrði afnumin og þeir yrðu ráðnir með öðrum hætti. Þetta hefur legið fyrir í frumvarpi allt frá 1994 og kom ekki kennurum neitt á óvart, þeir vissu það nákvæmlega þegar unnið var að þeim réttindamálum sem liggja að baki þessu frv. Því finnst mér heldur seint fram komið að það sé málsástæða fyrir því að vera andvígur þessu frv. eða því fyrirkomulagi sem þar er gert ráð fyrir. Einnig lá það fyrir í bréfi, sem er dagsett 12. des. sl. ef ég man rétt, að unnið væri að því að endurskoða lögin frá 1954 sem sent var m.a. til kennara þannig að allar þessar forsendur lágu fyrir þegar unnið var að gerð þessa frv. Það sem hér er um að ræða er að þetta er samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaganna, kennara og sveitarfélaganna um það hvernig staðið skuli að réttindamálum kennara þegar grunnskólinn er fluttur frá ríki til sveitarfélaga. Það er verið að fullnægja skilyrði sem Alþingi setti í 57. gr. grunnskólalaga. En við þingmenn, sem sífellt vinnum að því að fjalla um ný lög og nýjar forsendur, vitum að þær breytast, en það fer alltaf eftir því hvað menn vilja tengja mikið saman. Ég tel ástæðulaust að tengja þetta saman. Ég tel að hér sé um samningsatriði að ræða á milli sveitarfélaganna og kennaranna. Ramminn er skapaður í þessu frv. Það er tekið fullt tillit til óska kennara eins og þær komu fram í viðræðum. Þá lá fyrir að ríkið ætlaði að breyta réttarstöðu annarra kennara þannig að ekkert af því sem hér hefur verið nefnt er eitthvert nýmæli í málinu og lá allt fyrir þegar þetta samkomulag var gert.