Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 11:01:46 (3681)

1996-03-07 11:01:46# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[11:01]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann vel að vera að að hafi legið fyrir og er reyndar rétt að það lá fyrir að það átti að endurskoða lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, en eftir því sem maður les í þessu frv. þá komu fulltrúar opinberra starfsmanna hvergi að því máli. Og ég hygg að marga hafi rekið í rogastans þegar fregnir bárust af því hvað var verið að gera eða leggja til í þeirri nefnd. Vil ég þó taka fram að ég er alls ekki andvíg öllu því sem þar er verið að gera, en þó er þar um nokkur stórmál að ræða. Og eftir stendur það sem ég var að benda á áðan að verði frv. um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskólanna samþykkt og gangi í gildi 1. ágúst, þá kann svo að vera að mánuði áður verði gengin í gildi önnur lög sem breyta réttindum hins hluta félagsmanna. Við erum að tala um stéttarfélög sem greinast þannig að sumir vinna í grunnskólanum og aðrir í framhaldsskólanum. Ég get ekki séð með nokkru móti að þetta gangi upp. Ég er ekki síst að hugsa um réttindi þessara starfsmanna. Ég spái því að það verði ekki liðinn langur tími frá því að grunnskólinn fer yfir til sveitarfélaganna þar til menn fara að sjálfsögðu í það að samræma þessi réttindi. Það gengur ekki í opinberu kerfi hvort sem það eru sveitarfélögin eða ríkið að það séu mjög mismunandi réttindi í gangi. Ég hef ekki trú á því að það gangi upp og það á heldur ekki að vera þannig.