Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 11:03:31 (3682)

1996-03-07 11:03:31# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[11:03]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er kjarni málsins sem hv. þm. nefndi að eins og málið er núna þá verða mismunandi réttindi. Það verða önnur réttindi hjá þeim kennurum sem verða starfsmenn grunnskólans á grundvelli þessa frv. sem við erum að fjalla um heldur en hinna ef þessar breytingar ná fram að ganga. Það lá einnig fyrir þegar við höfum verið að fjalla um framhaldsskólafrv. Það hefur legið alla tíð fyrir að þarna getur verið um mismunandi réttindi að ræða. Við tökum af skarið með þessu frv. um réttindi grunnskólakennaranna. Hitt málið verður þá að hafa sinn gang og síðan verða menn í framtíðinni að taka sínar ákvarðanir en þeir verða að gera það á grundvelli þessa frv. sem verður vonandi samþykkt og mælir alveg ótvírætt fyrir um réttindi grunnskólakennara. Ég er sammála hv. þm. um það að í þessu máli verða menn að geta skilið á milli þessara tveggja hluta. Ef það skapar vandamál fyrir stéttarfélögin að menn innan þeirra hafa mismunandi réttindi, þá hljóta stéttarfélögin að geta leyst úr því eins og mörgu öðru þannig að ég sé ekki að það sé sá ásteytingarsteinn sem menn eigi að nota í þessu. Það hefur legið fyrir og fulltrúar stéttarfélaganna sátu í þeirri nefnd sem samdi frv. og vissu þá jafnframt um frv. um framhaldsskólakennara. Ég varð ekki var við það þá að menn væru að bera fyrir sig í þeim viðræðum að þetta væri með þessum hætti. Ég held að þetta sé eitt af þeim atriðum sem við verðum að skoða og meta með hliðsjón af þeim vilja okkar til þess að breyta og færa grunnskólann yfir til sveitarfélaganna. Ef menn vilja það í raun og veru eins og Alþingi varð einróma sammála um fyrir rúmu ári og sjá hér hvernig við ætlum að gera það, þá finnst mér að við eigum að ræða það á þeim efnislegum forsendum en ekki fara að taka ný atriði inn í það sem snerta í raun og veru ekki það mál.