Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 11:24:34 (3686)

1996-03-07 11:24:34# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, HG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[11:24]

Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil eindregið taka undir það sjónarmið sem kom fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að það er sjálfsagt að fresta þessari umræðu þangað til þeir ráðherrar sem hafa boðað að þeir hyggist standa að þingmálum, að stjórnarfrumvörpum sem ganga í allt aðra átt en það mál sem hér er rætt og liggur fyrir til umræðu. Það er satt að segja mjög furðulegt að hæstv. menntmrh. skuli koma hér og telja að það sé óeðlilegt að við óskum eftir nærveru þessara ráðherra, jafnsamofin og þessi mál eru pólitískt.

Hæstv. ráðherra hefur í dag, virðulegur forseti, reynt að haga sínu máli þannig að að formi til sé hægt að taka á málinu einangrað. Ég held að það þurfi mikið hugmyndaflug satt að segja til að taka undir slík sjónarmið. Það sem er óeðlilegt við þessa umræðu er að lagt sé út í hana án þess að aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni séu viðstaddir. Auðvitað hefði verið æskilegt og fyllilega eðlilegt að hæstv. forsrh. væri viðstaddur þegar þessi umræða færi fram, en við höfum skilning á því að á þessum degi er hæstv. forsrh. veikur. En geti ráðherrar ekki verið hér við af einhverjum ástæðum, þá er auðvitað ekki annað að gera en fresta umræðunni.