Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 11:26:41 (3687)

1996-03-07 11:26:41# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[11:26]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sighvati Björgvinssyni fyrir að benda á þessa staðreynd sem liggur í augum uppi að auðvitað verða þessir ráðherrar að koma hingað til umræðunnar einmitt til þess að gera hana málefnalega, ekki til að gera hana ómálefnalega eins og hæstv. menntmrh. hélt fram áðan. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá sérstaklega til sögunnar hæstv. fjmrh. sem hefur verið að semja frumvörp um að taka allt það af kennurunum sem á að afhenda þeim samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir. Þetta er framkoma sem er algjörlega ólíðandi og það er lágmark að þessir menn láti sjá sig í þessari stofnun á sama tíma og verið er að ræða málið.

Hitt er svo líka mikilvægt, hæstv. forseti, að á sama tíma og þessi umræða stendur yfir, hefur ekki náðst samkomulag við sveitarfélögin um flutning grunnskólans. Það er fundur á vegum Samtaka sveitarfélaga ég hygg á morgun, þar sem verður farið yfir þessi mál og þar eru menn m.a. að velta því fyrir sér að gera það að skilyrði fyrir flutningnum að breyta grunnskólalögunum og seinka innsetningunni um mörg ár til þess að sveitarfélögin fallist á flutninginn. Hér væri auðvitað um að ræða þvílíka aðför að þessu máli í heild að það tekur engu tali og því full nauðsyn á því að málið sé rætt á breiðum grundvelli. Ef það er hins vegar ekki hægt í dag, þá á auðvitað að fresta því fram yfir helgi þangað til afstaða sveitarfélaganna liggur fyrir. Það er fráleitt af ráðherranum að reyna að knýja stjórn þingsins til að reyna að ræða málin áfram með þeim hætti sem við erum að reyna í dag.