Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 11:56:30 (3693)

1996-03-07 11:56:30# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[11:56]

Svanfríður Jónasdóttir:

Virðulegi forseti. Það er dapurlegt að þegar frv. til laga um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla kemur til umfjöllunar hér á hinu háa Alþingi, sá réttindagrunnur sem flutningur grunnskólakennara frá ríki til sveitarfélaga hvílir á, þá skuli hátta þannig til að kennarafélögin hafa bæði ákveðið að draga sig út úr öllu samstarfi um flutning grunnskólans. Í ályktun frá þeim kemur margítrekað fram að verði af flutningi við þessar kringumstæður þá sé það í fullri andstöðu við félögin, í fullri andstöðu við þá sem þessi breyting snýst um sem eru fyrst og fremst kennararnir í landinu.

Það frv. sem hér er til umfjöllunar, sem uppfyllir vissulega þau formskilyrði sem það á að uppfylla, er afrakstur vinnu verkefnisstjórnar sem fjallaði um réttindamál kennaranna þegar þeir yrðu starfsmenn sveitarfélaga. Sú vinna sem þar fór fram sýnir að fulltrúar kennara og sveitarfélaga unnu heils hugar að því mikla verkefni sem markað var með samþykkt grunnskólalaganna fyrir um réttu ári síðan. En eins og fram kom í greinargerð þess lagafrv. var meginmarkmið þess flutningur alls reksturs grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga og að ábyrgð á allri starfsemi grunnskólans yrði falin sveitarfélögum. Var þar um að ræða rökrétt framhald breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá árinu 1989 þar sem ákveðið var að sveitarfélögin kostuðu ein stofnun og rekstur grunnskóla. Um viðamikið verkefni og mikilvægt er að ræða og því mikils um vert að allir sem að því koma vandi sig sem mest þeir mega og að orð standi. Verkefnið er ekki aðeins mikilvægt vegna grunnskólans þó það eitt og sér væri ærin ástæða til vandvirkni. Nei, það er jafnframt líklegt að það að sveitarfélögin taka á sig þá miklu ábyrgð sem yfirtöku verkefnisins fylgir hafi afgerandi áhrif á þróun sveitarfélaganna í næstu framtíð. Því það er nokkuð víst að sú mikla vakning, sem er meðal sveitarstjórnarmanna varðandi sameiningu sveitarfélaga nú um stundir, tengist ekki síst yfirtöku þessa verkefnis og því hversu stórt og krefjandi það er. Sveitarfélögin hafa líka lagt gríðarlega vinnu í þetta verkefni grunlaus um þær sendingar frá ríkisvaldinu sem nú eru því miður staðreynd.

Í febrúarbréfi menntmrn. segir hæstv. menntmrh. m.a., með leyfi forseta:

,,Ég hef komist þannig að orði að grunnskólinn sé fjöregg þjóðarinnar og því beri að fara varlega við að færa hann frá einum aðila til annars. Þannig hefur verið staðið að málinu. Allir hafa leitast við að vera samstiga. Skólinn kemst því óbrotinn til sveitarfélaganna 1. ágúst 1996 nema slys verði á síðasta áfanganum.``

Nú, virðulegur forseti, hefur það slys orðið. Á sama tíma og unnið er að yfirfærslu grunnskólans og kennarar taka fullan þátt í því starfi sem lýtur að því að réttindi þeirra færist óbreytt milli þessara aðila, ríkis og sveitarfélaga, svo sem fyrir er sagt í grunnskólalögunum þá eru aðrar nefndir að störfum sem eru að dunda við allt aðra hluti en óbreytt réttindi. Lítum betur á lífeyrismálin.

Í lok nóvembermánaðar bar sú sem hér stendur fram fyrirspurn til fjmrh. um hvernig miðaði vinnu við breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem tryggi öllum þeim kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla sem rétt hafa átt til aðildar að sjóðnum áframhaldandi aðild svo sem segir fyrir í 57. gr. grunnskólalaga. Í svari ráðherra kom fram að samstarfsnefnd ríkis, sveitarfélaga og kennara hefði þá skömmu áður skilað af sér tillögum um það hvernig farið yrði með lífeyrismálin. Jafnframt kom fram í máli ráðherrans að hafinn væri undirbúningur að samningu lagafrv. um breytingu á lögunum um lífeyrissjóðinn þar sem tekið yrði á þeim atriðum sem samstarfsnefndin teldi nauðsynlegt til að flutningur réttinda gengi sem best. En, virðulegi forseti, ráðherrann lét þess jafnframt getið að önnur nefnd, án aðildar kennara, væri að athuga með aðrar breytingar á lögunum um lífeyrissjóðinn og rakti nokkrar þeirra. Þar voru þau atriði sem nú hafa birst í því frv. sem ráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn og hafa minna en ekkert með flutning grunnskólans að gera eða þær tillögur sem samstarfsnefndin skilaði af sér til ráðherra, enda margkomið fram að um sé að ræða skerðingu á lífeyrisréttingum kennara og er það hvorki í samræmi við loforð stjórnvalda um efnislega óbreytt réttindi né í samræmi við niðurstöður verkefnisstjórnarinnar þar sem, eins og fram kemur í bréfi hennar til ráðherra frá 1. febrúar sl., segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Við umfjöllun þessa máls innan verkefnisstjórnarinnar hefur verið sérstakur gaumur gefinn að því með hvaða hætti skuli tryggja við flutninginn óskert lífeyrissjóðsréttindi þeirra starfsmanna sem átt hafa aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Vísast í þessu sambandi til 57. gr. grunnskólalaga, nr. 66/1995, og 4. tölul. kafla 1.3.1 og kafla 3.5 í skýrslu nefndar um réttindamál grunnskólakennara við flutning grunnskóla til sveitarfélaga.

Það er skilningur verkefnisstjórnarinnar að við flutning grunnskólans til sveitarfélaga sé ekki ætlunin að skerða lífeyrisréttindi kennara og skólastjórnenda.``

Það er þess vegna furðulegt að heyra það hér að þær hugmyndir, sem liggja fyrir um skerðingu þessara réttinda, skuli nú vera kallaðar hlutir sem snerta ekki þetta mál eins og mátti skilja á hæstv. ráðherranum hér áðan. Því vissulega er það svo að það snertir þetta mál þegar verið er að ganga beinlínis á svig við það sem áskilið var og menn skrifuðu undir 1. febrúar í ár.

Mér finnst rétt að taka fram að menntmrh. lýkur sérstöku lofsorði á formann Kennarasambands Íslands í fyrrnefndu fréttabréfi ráðuneytisins og telur að afstaða hans hafi ráðið miklu um farsæla niðurstöðu í réttindamálum kennara. Og svo segja menn að það sé ekki verið að koma aftan að neinum. Hvað með þá sem skrifuðu undir bréf verkefnisstjórnarinnar í góðri trú? Hér áðan var lesið upp bréf frá þessum sama formanni Kennarasambandsins þar sem hann segir sig frá þessari undirskrift. Hér er auðvitað um að ræða fullkominn trúnaðarbrest milli ríkisvaldsins og kennaranna og augljóst að verið er að nota það tilefni sem gefst til breytinga á lífeyrissjóðnum vegna yfirfærslu grunnskólans til að skerða lífeyrisréttindi, ekki bara kennaranna heldur opinberra starfsmanna almennt. Þess vegna hljótum við að svara hæstv. ráðherranum þegar hann talar um að menn séu að stofna málinu í óvissu. Við hljótum að spyrja hver það sé. Hver er það sem stofnar þessum málum í óvissu?

Þá er komið að þriðja aðila málsins sem eru sveitarfélögin í landinu. Hvað með þau? Eru menn þar á bæ búnir að átta sig á stöðu mála og því að kennararnir munu ekki samþykkja að kjarasamningur þeirra við ríkið flytjist á milli aðila eins og samkomulag var áður orðið um? Hafa menn þar á bæ áttað sig á að það samkomulag er nú í vindinum vegna framkomu ríkisins? Og að ef af yfirfærslunni verður í blóra við samtök kennaranna þá verða engir kjarasamningar til staðar 1. ágúst nk., nema sveitarfélögin verði búin að gera við þá nýjan kjarasamning? Undir gerð þess kjarasamnings búa samtök kennara sig nú. En eru sveitarfélögin farin að undirbúa það? Er þeim þessi alvarlega staða málsins ljós? Það er að renna upp fyrir þeim ljós þessa dagana trúi ég.

Það frv. sem hér liggur fyrir um réttindamálin, og er að því er virðist miðað við það sem fram hefur komið af hálfu hæstv. ráðherra fyrst og fremst til þess að uppfylla tiltekin formskilyrði, er nú eðlilega álitið einbert sýndarmennskuplagg af hálfu margra kennara sem benda á að miðað við þau vinnubrögð sem þeir hafa kynnst af hálfu ríkisstjórnar varðandi lífeyrismálin, þá treysti þeir því ekki að kennarar og skólastjórnendur grunnskóla haldi lengi þeim réttindum sem þar er kveðið á um og stangast munu vissulega á við réttindi annarra opinberra starfsmanna og annarra kennara í sömu kennarafélögum sem verða eftir þessa breytingu áfram starfsmenn ríkisins því ef önnur áform ríkisstjórnarinnar um breytingar á réttindum ríkisstarfsmanna ganga eftir þá verða til nokkrar tegundir kennara með mismunandi réttindi. Auðvitað óttast kennarar að þau réttindi sem þeim eru áskilin með því frv. sem hér er borið fram verði hirt af þeim með lögum rétt eins og af öðrum.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherrans að það á eftir að semja á milli ríkis og sveitarfélaga um hve miklir fjármunir skuli fylgja yfirtöku sveitarfélaganna af öllum rekstri grunnskólans. Þannig er ekki er búið að hnýta alla hnúta enn þá fyrir utan starfsmannamál. Það kom líka fram í hans máli að drög að samkomulagi liggja fyrir á milli aðila. Það er þá líklega eins gott að taka það strax með í reikninginn, og væntanlega hafa aðilar gert það, að ríkið hefur þegar breytt því umhverfi sem menn töldu sig vera að vinna í, m.a. hvað varðar kjarasamninga kennaranna. En að reyna að halda því fram að ný lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins eða frv. um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna hafi ekki áhrif, að það sé einhver misskilningur og þá væntanlega allra annarra en þeirra sem sitja í ríkisstjórninni og hafa þaðan sína sérstöku sýn á málin, því ég er hér með ályktanir sem voru í pósthólfinu mínu nú áðan, ályktanir frá 24 félögum opinberra starfsmanna eða samtökum þeirra, ef menn halda að þetta hafi ekki áhrif þá eru menn auðvitað meira en blindir.

Auðvitað hefur það áhrif ef þau frv. sem fyrir liggja ná fram að ganga og það mun þá væntanlega koma í hlut sveitarfélaganna hvað varðar kennarana að borga þeim fyrir þau réttindi sem ríkið tekur af sínum starfsmönnum að því er virðist bótalaust. Því það hefur ekkert annað komið fram en að réttindin verði tekin af mönnum bótalaust, að það séu þakkirnar fyrri áralanga þjónustu á lélegu kaupi í gegnum tíðina. Lélegu kaupi sem réttlætt hefur verið með öllum réttindunum sem nú eru talin svo léttvæg að þau skipta tæpast máli að mati ráðamanna. Nei, virðulegi forseti, hér er um að ræða kjaraatriði sem hafa haft svo afgerandi áhrif á laun og kjör opinberra starfsmanna að það hlýtur að verða að semja um þau nema ætlunin sé að ganga einhliða á kjör starfsmanna ríkisins og enn sem komið er verður því vart trúað. Eða til hvers er þá samningsrétturinn ef svo stórum og afdrifaríkum málum má nú skipa einhliða með lögum?

Eina vonin til að bjarga því sem bjargað verður er að þau frv., sem lúta að breyttum réttindum launafólks og ríkisstjórnin hyggst bera fram í fullkominni ósátt við þá sem við þau eiga að búa, verði dregin til baka í þeirri mynd sem þau eru nú og það handsalað við fulltrúa stéttarfélaganna að þau verði ekki borin fram fyrr en full sátt ríkir og samkomulag hefur tekist um það hvernig farið verður með réttindi launafólks, hvort sem er á hinum opinbera markaði eða hinum almenna. Þannig held ég að ríkisstjórnin ætti að taka fullt mark á ályktun stjórna BHMR, BSRB og KÍ frá 6. mars sl., þar sem fram kemur að samtökin krefjast þess að ríkisstjórnin hafi raunverulegt samráð við opinbera starfsmenn og leiti samninga um þær breytingar sem hún vill koma fram.

Ég óttast reyndar að sá trúnaðarbrestur sem orðinn er gagnvart kennurunum sérstaklega hafi gert varanlega út um þá von, sem ég og fleiri deildum með hæstv. menntmrh., að grunnskólinn, þetta fjöregg, flyttist óbrotinn á milli aðila. En fyrsta skrefið í þá átt að líma þau brot saman væri að ráðherrann gerði sér grein fyrir því og það kæmi þá fram hversu alvarlegt málið er og að ríkisstjórnin öll ynni í samræmi við það.

Ég ætla í lok máls míns, virðulegi forseti, að draga saman þau atriði sem mestu máli skipta til þess að árétta það hversu alvarleg staðan er.

Í fyrsta lagi. Kennarafélögin hafa ákveðið að draga sig út úr öllu samstarfi um flutning grunnskólans. Kjarasamningar kennara við ríkið flytjast því ekki yfir til sveitarfélaganna og enginn kjarasamningur verður í gildi milli kennarafélaganna og sveitarfélaganna 1. ágúst nema þessir aðilar verði búnir að semja sín í milli. Það undirbúa kennarafélögin nú. Hafa sveitarfélögin gert sér grein fyrir þessari stöðu og hafið undirbúning að kjarasamningsgerð?

Í öðru lagi. Á sama tíma og unnið er í verkefnisstjórn með þátttöku kennara og sveitafélaga að flutningi réttinda, þar með töldum óskertum lífeyrisréttindum, eru aðrar nefndir að störfum án þátttöku kennara og þær nefndir eru að vinna í allt aðra átt. Þessi vinnubrögð koma í bakið á forustu kennaranna og hafa valdið fullkomnum trúnaðarbresti milli kennara og ríkisstjórnar.

Í þriðja lagi. Það frv. sem liggur fyrir um réttindamál kennara og skólastjórnenda grunnskóla er nú af mörgum kennurum álitið einbert sýndarmennskuplagg til að uppfylla formskilyrði. Eftir þau vinnubrögð sem kennarar hafa kynnst í lífeyrismálunum treysta þeir því ekki að þetta plagg haldi né þau réttindi sem það á að tryggja nema rétt á meðan undirskriftir þorna.

Í fjórða lagi. Það er verið að nota tilefnið til breytinga á lögum um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna vegna yfirfærslu grunnskólans til að skerða lífeyrisréttindi ekki bara kennaranna heldur allra ríkisstarfsmanna. Meint réttindi opinberra starfsmanna hafa gjarnan verið notið sem réttlæting á lágum launum þeirra. Það verður að semja um svo veigamikil kjaraatriði sem réttindamálin. Þau hafa haft bein áhrif á launaákvarðanir í kjarasamningum opinberra starfsmanna hingað til.

Virðulegi forseti. Það mál sem við fjöllum nú um, flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna, er eitt af stóru málum þessarar ríkisstjórnar og í rauninni prófsteinn á það hvort ríkisstjórnin ræður við skipulagsverkefni af því tagi og þær breytingar á stjórnsýslu í landinu sem hljóta að fylgja. Þetta eru breytingar sem er verið að koma fram til að fullnusta grunnskólalög sem nú eru rúmlega ársgömul. Til þess að þetta takist, til þess að ríkisstjórnin geti komið þessu máli fram eins og á að gera þá er ekki nóg að fullnægja formskilyrðum. Það er blekking ef menn halda það. Það er gerð krafa um að efnisskilyrðunum sé fullnægt og mikilvægi málsins er slíkt að það hlýtur að verða gert þó hæstv. ráðherra og jafnvel ríkisstjórnin öll hafi ekki áttað sig á því enn.