Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 12:36:42 (3695)

1996-03-07 12:36:42# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[12:36]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Í máli hv. þm. kom fram að það væri óhuggulegt að skynja þá tortryggni sem ríkti úti í samfélaginu á meðal opinberra starfsmanna gagnvart stjórnmálamönnum. Það er vissulega hægt að taka undir það. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni sem við okkur blasir og reyndar á það sér orðið alllanga sögu, þ.e. þessi furðulegu og hörmulegu samskipti ríkisvaldsins við sína starfsmenn. Við erum búin að horfa upp á það ár eftir ár að einstakir hópar ríkisstarfsmanna hafa farið í verkfall og það hafa verið sett lög á launahækkanir og vinnudeilur og fleira slíkt. Þetta er mikil öfugþróun og ég veit svo sem ekki hvar orsakanna er að leita. Þetta er orðin löng og mikil saga og það verður að taka á þessum vinnubrögðum öllum sem við erum nú vitni að, þ.e. að hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir. Því miður á flokkur hv. þm. töluverðan þátt í þessum vinnubrögðum.