Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 12:52:20 (3703)

1996-03-07 12:52:20# 120. lþ. 103.6 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[12:52]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. hans ræðu. Ég vil láta þess getið varðandi þau tvö atriði sem nefnd voru, sérfræðiþjónustuna og skólabúðirnar á Reykjum, að í þeirri vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum dögum og samningum sem staðið hafa yfir milli ríkisins og sveitarfélaganna hefur sérstaklega verið hugað að sérfræðiþjónustunni og hvernig best verði staðið að því og sérkennslumálum. Einnig tel ég að það liggi fyrir samkomulag um það hvernig unnt verði að starfrækja áfram skólabúðirnar að Reykjum. Í báðum þessum tilvikum hefur því verið hugað mjög gaumgæfilega að þeim óskum sem fram hafa komið. Ég held að lausnir séu í samræmi við það sem óskir hafa verið uppi um.

Það er rétt sem hv. þm. sagði að það hefur verið sjónarmið kennaranna að þeim sé ekki unnt að láta af hendi réttindi sín nema fá eitthvað í staðinn eins og það var orðað eða eitthvað komi þar á móti. Það er grundvallarviðhorf sem menn verða að hafa í huga þegar rætt er um frv. sem við erum að fjalla um. Með því að standa að málum eins og gert er í frv. er lagður grunnur að því að samningsaðilarnir, kennararnir annars vegar og sveitarfélögin hins vegar, geti staðið þannig að málum að réttindi séu alveg skýr og skyldurnar líka hjá hvorum um sig þannig að unnt verði þegar menn setjast niður og fjalla um þessi málefni, þessir tveir aðilar sem er forsenda þess að þessum lögum yrði breytt ef frv. nær fram að ganga, þá stæðu þeir jafnt að vígi. Þá væri hægt að tala um þetta á þeim forsendum sem hv. þm. nefndi að eitthvað kæmi í staðinn fyrir þau réttindi sem menn afsöluðu sér. Þetta er sú hugsun sem kennarar hafa alltaf látið uppi þegar um þessi mál hefur verið rætt. Með frv. er sú réttarstaða tryggð að aðilarnir sætu við sama borð. Ríkið skapar rammann sem handhafi grunnskólans á þessu stigi og flytur hann yfir til sveitarfélaganna á þessum forsendum.