Erfðabreyttar lífverur

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 14:28:17 (3708)

1996-03-07 14:28:17# 120. lþ. 103.7 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, Frsm. ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:28]

Frsm. umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að við höfðum margt í huga, eins og kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ég ítreka orð mín um það að hér er um rammalög að ræða og menn vildu benda til átta þar sem mönnum þótti ástæða til þess að hafa áhyggjur, svo sem að Ísland er á norðurslóð og um margt viðkvæmara hvað erfðabreyttar lífverur snertir en önnur landsvæði.

Um 6. gr. þar sem við leggjum til að hafa níu menn í stað fimm má segja í stuttu máli að af sömu ástæðum og ég hef getið vildum við ekki þrengja val mannanna í nefndina, hvorki með því að hafa þá of fáa né heldur að telja upp í lagatexta nákvæmlega þær stofnanir og sérfræðigreinar sem ættu að koma í nefndina vegna þess að við treystum þeim sem hafa framkvæmdarvaldið til þess einmitt að gæta þeirra hagsmuna sem hv. þm. gat um hvað varðar dýr og plöntur og sem svo sannarlega eru hin miklu og stóru áhyggjuefni þeirra sem um þessi mál fjalla.

Ég hygg að ég hafi komið inn á eða getið um flest þau atriði, þótt stuttlega hafi verið, en er tilbúinn til að ræða þetta frv. frekar í dag eða síðar. Ég veit að hæstv. umhvrh. mun geta um nokkur þau atriði sem ég hef ekki komið inn á og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór nokkrum orðum um.