Erfðabreyttar lífverur

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 14:30:23 (3709)

1996-03-07 14:30:23# 120. lþ. 103.7 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:30]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér er komið til 2. umr. frv. til laga um erfðabreyttar lífverur frá umhvn. sem leggur til breytingar á frv. í mörgum liðum eins og fram kemur á sérstöku þingskjali. Ég vil rifja það upp að frv. þetta kom fram á 119. þingi, vorþinginu sem við köllum, í kjölfar síðustu alþingiskosninga. Það var þá fyrst lagt fram en undirbúið í tíð fyrri ríkisstjórnar að verulegu leyti og ég geri ráð fyrir nokkurn veginn í þeim búningi sem það var síðan lagt fram. En hæstv. umhvrh. getur upplýst það nánar og hefur það kannski einhver áhrif á viðbrögð manna við þeim tillögum sem nefndin gerir, þó að ég vilji trúa því að menn líti á þetta fyrst og fremst út frá efni máls en ekki út frá höfundarrétti frumgerða eða þróun málsins í vinnslu.

Ég vil minna á það, virðulegur forseti, að við 1. umr. málsins á 119. þingi gerði ég grein fyrir sjónarmiðum mínum í sambandi við þetta efni í ræðu og drap þar á þau atriði sem ég taldi að þyrfti sérstaklega að gæta við frekari skoðun þessa máls. Það var þó fyrst og fremst eitt atriði sem ég lagði megináherslu á í mínu máli þá. Það var að inn í alla umfjöllun um þessi mál og það sem tengdist frv. væri nauðsynlegt að taka siðferðilega mælikvarðann fram og ræða málin í ljósi slíkra viðhorfa þannig að það væru ekki fyrst og fremst tæknileg atriði, hagsmunaleg atriði, efnahagsleg atriði sem réðu þeim leyfisveitingum og skilyrðum sem sett eru varðandi nýtingu á erfðabreyttum rannsóknum og hugsanlega nýtingu á erfðabreyttum lífverum. Þetta hefur síðan verið til umfjöllunar í umhvn., bæði á síðasta þingi, 119. þingi, þann skamma tíma sem þá var til stefnu en einnig í nefndinni á yfirstandandi þingi. Þar hefur málið verið til umræðu á fjölmörgum fundum nefndarinnar sem, eins og fram kom hjá formanni hennar, hefur lagt sig verulega fram um að setja sig inn í málið í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi og þeirrar þróunar í löggjöf sem orðið hefur í nágrannalöndum okkar m.a. frá því að grunnur frv. var fyrst unninn. Og ég mun koma aðeins nánar að því í mínu máli.

Það varð niðurstaða eins og fram kemur í breytingartillögunum að taka alvarlega kröfuna um hina siðferðilegu umræðu um að beiting eða nýting erfðabreyttra lífvera sé réttlætanleg, sé ábyrg út frá siðferðilegum og samfélagslegum mælikvarða. Þetta er þungamiðjan í þeim breytingum sem nefndin leggur til í frv. og ekki aðeins á markmiðsgrein heldur í fjölmörgum greinum þar sem fjallað er um skilyrði fyrir leyfisveitingum. Ég tel að nefndin hafi stigið mjög réttmætt og farsælt skref með því að taka þetta inn í frumvarpstextann og gera tillögu um það eins og þetta liggur fyrir. Það breytir að mínu mati ekki aðeins svipmóti málsins heldur í rauninni einnig undirstöðunni þar sem inn í markmiðin eru teknir þessir þættir sem skilyrði fyrir skoðun málsins á athugunarstigi hjá bærum aðilum og skilyrði fyrir leyfisveitingum að þar sé ábyrgt haldið á málum.

Menn kunna að spyrja: Erum við þá að ganga gegn þeim tilskipunum sem lagðar voru til grundvallar? Þær voru að mér skilst hvati þess að umhvrn. tók þessi mál á sínum tíma sérstaklega til umfjöllunar með lagasetningu í huga. Eru menn að ganga á einhvern hátt gegn þeim skilyrðum? Ég svara því þannig að svo sé ekki með neinum ótvíræðum hætti. Það er ekki verið að því heldur er verið að tryggja lagastoð fyrir þeim fyrirmælum sem þar eru og við erum skuldbundin að taka tillit til sem aðilar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. En hins vegar leyfum við okkur svo sem við höfum heimildir til að bæta við mikilsverðum þáttum varðandi málið sem breikka sviðið, sem bæta við mælikvarðana. Og það hefur komið í ljós eða a.m.k. ekki annað komið í ljós heldur en það sé góður réttur okkar að gera það. Ég hef ekki heyrt af andmælum eða formlegum mótmælum að neinu leyti við það sem tekið hefur verið upp í löggjöf nágrannalanda eins og Noregs, Svíþjóðar og Finnlands nú undanfarin ár varðandi þessi atriði, en öll þessi lönd hafa tekið þessa mælikvarða með inn í sína löggjöf um erfðabreyttar lífverur.

Það var minnst á að Danir hefðu þetta ekki í sinni löggjöf og það er rétt að ég best veit að ekki er enn búið að yfirfara dönsku lögin með tilliti til þessa. En ég hef trú á því að þess verði ekki langt að bíða að Danir breyti sínum lögum að þessu leyti. Svo mikið er víst að nú alveg nýverið, ég held í byrjun ársins eða a.m.k. á þessum vetri, skilaði opinber aðili danskur sem kallast Teknologirådet skýrslu um erfðabreyttar lífverur og meðferð þeirra og leggur einmitt í henni ríka áherslu á að það þurfi að taka hinn siðferðilega þátt með inn í skoðun málsins. Engan veginn nægi fyrir meðferð þessara mála framvegis að leggja það fyrst og fremst í hendur rannsóknaraðila sem eðli máls samkvæmt eru að jafnaði kappsfullir og áhugasamir um sitt sérsvið eða í hendur stjórnmálamanna án leiðsagnar, þannig að með styrkri stoð í fyrirmælum og löggjöf sé hægt að taka á málum út frá víðu sjónarhorni þar sem þessir mikilvægu þættir einnig eru í heiðri hafðir og teknir með í athugun málsins.

Ég gæti, virðulegur forseti, haft um þennan þátt lengra mál. Ég ætla ekki að bæta miklu við um þetta sérstaklega. En ég vek athygli á því að í einkaleyfalöggjöf okkar og við breytingar á henni var um þessi efni fjallað og mikið rætt. Einkaleyfalöggjöfin snertir þessi efni. Í 1. gr. laga nr. 17/1991, sem breytt var fyrir líklega tveimur árum, er tekið inn í 1. gr. og ég leyfi mér að vitna til þess hér samhengisins vegna, með leyfi forseta:

,,Einkaleyfi má ekki veita fyrir:

1. Uppfinningum sem stríða mundu gegn siðgæði eða allsherjarreglu.

2. Plöntu- eða dýraafbrigðum eða aðferðum við að framleiða plöntur eða dýr sem eru aðallega líffræðilegar. Þó má veita einkaleyfi fyrir aðferðum á sviði örverufræði og afurðum slíkra aðferða.``

Þetta segir í okkar gildandi einkaleyfalöggjöf og það má segja að sú stefna sem umhvn. fer inn á sé í góðu samræmi við þá varnagla og þau fyrirmæli sem sett eru að athuguðu máli í löggjöfina um einkaleyfi. Þetta lá ekki fyrir beinlínis með þessum hætti í frv. sem flutt var heldur var það tekið upp í iðnn. á þeim tíma af fulltrúum sem þar áttu sæti. Mikið var um málið fjallað auk þess sem um það hafði verið fjallað í sérstakri nefnd sem skilaði áliti til iðn.- og viðskrn. um einkaleyfavernd á sviði líftækni í maí 1995. Þar er að finna mikinn fróðleik og ábendingar um þessi efni og raunar ábendingar sem gætu varðað frekari breytingar og styrkingu á þeim fyrirvörum sem varða einmitt þessi siðferðilegu og hugsanlega einnig samfélagslegu álitaefni. Ég hvet áhugaaðila um málið til að kynna sér þá álitsgerð sem þarna var skilað af sérstakri stjórnskipaðri nefnd í maímánuði 1995. Ég hef nefnt hér heitið á skýrslu nefndarinnar. Ég kem síðar, virðulegur forseti, að einmitt einkaleyfamálinu sem er einn þáttur þessa máls í alþjóðlegu samhengi. Það er mjög mikið til umræðu og mjög umdeilt á alþjóðlegum vettvangi svo sem eðlilegt er.

Þá kem ég aðeins að fáeinum atriðum öðrum varðandi breytingartillögur okkar. Hv. formaður nefndarinnar hefur gert grein fyrr þeim í einstökum atriðum. Ég ætla aðeins að taka á örfáum þáttum frekar og m.a. í ljósi þeirrar ræðu sem hér var flutt síðast af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Í brtt. nefndarinnar við 2. gr. frv. er lögð er til svohljóðandi viðbót, með leyfi forseta:

,,Við framkvæmd laganna skal höfð í huga sérstaða landsins á norðurslóð.``

[14:45]

Það komu mér satt að segja afar mikið á óvart þau viðhorf sem hv. 15. þm. Reykv. dró fram varðandi þessa brtt. sérstaklega. Á ég þá ekki við spurninguna um orðalag sem lengi má deila um heldur efnisatriðið í þessum þætti. Ég er afar undrandi á því ef svo glöggur þingmaður og viðkomandi hv. þm. er í margri grein telur að ekki sé eðlilegt að slá þennan varnagla sem hér er gert en ég gat ekki annað en lesið það í mál hans að hann teldi hortitt að gera þessa brtt. af hálfu nefndarinnar. Ég vil aðeins skýra þetta því að eins og aðrir á ég hlut að máli sem aðstandandi þeirra breytingartillagna sem hér liggja fyrir.

Virðulegur forseti. Það er almennt viðtekið viðhorf að umhverfi norðurslóða, lífríki norðurslóða, sé vegna umhverfisskilyrða viðkvæmara að mörgu leyti en umhverfi suðlægari staða þó að þeir geti einnig og einkum þegar kemur sunnar þar sem hiti og aðrar umhverfisaðstæður takmarka lífsskilyrðin eða valda því að lífríkið er fábreyttara tegundalega séð, færri tegundir og eiga við örðug umhverfisskilyrði að etja sem þau hafa þó vissulega lagað sig að í tímans rás. Slíku umhverfi er að sjálfsögðu hættara við röskun vegna manngerðra breytinga, vegna skyndilegra breytinga þar sem náttúran bregst ekki við með sínum ráðum, með sínum viðbrögðum á þeim tíma sem líffræðileg þróun þarf að fylgja. Því getur það verið og ég held að það sjónarmið sé hvarvetna uppi að við slíkar aðstæður, m.a. þar sem er tegundaleg fábreytni og á okkar einangraða landi, eyjunni Íslandi, vill svo til að við erum með sérstaka tegund af samsetningu sem að nokkru leyti a.m.k. stafar af því að landið er eyland og liggur langt frá meginlöndum. Það er því viðkvæmara fyrir bæði innflutningi tegunda í þetta umhverfi og um það erum við hv. þm. sammála, aðstandendur að sérstöku frv. þar að lútandi. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem stendur ásamt mér að frv. um sérstakar breytingar á lögum um landgræðslu að þessu leyti og hvað þá ef um er að ræða erfðabreyttar lífverur og sleppingu þeirra í umhverfið en það er einmitt viðfangsefni þessa frv. að setja um það skilyrði og móta reglur um það. Það eru þessi umhverfisskilyrði norðurslóða og þar á meðal hér á landi sem valda því að þar þurfum við að vera sérstaklega vakandi og hafa í huga þá þætti sem landinu eru búnir og lífríki þess.

Þá kem ég aðeins að málfarsatriðinu sem hv. þm. dró fram. Ég spyr: Þekkja menn ekki það orðfæri í íslenskri löggjöf ,,að hafa hliðsjón af``? Ég held að það sé býsna víða í íslenskri löggjöf. Hver er munurinn á ,,að hafa hliðsjón af`` eða ,,að hafa í huga`` í reynd? Hann er ekki mikill. Að hafa hliðsjón af er ekki bjóðandi, er ekki ákvarðandi. Að hafa í huga er heldur ekki ákvarðandi í einstökum atriðum en slær varnagla og lögin bjóða það að þetta atriði skuli tekið með þegar verið er að meta leyfisveitingar á grundvelli væntanlegra laga svo að ég er alveg undrandi á því að þetta skuli vera ásteytingsefni en ekki er það svo stórt að ég dvelji lengur við það.

Ég ætla að víkja af þessu tilefni aðeins frekar að athugasemdum hv. þm. sem er ekki lengur í sal, virðulegur forseti. Það væri gott að hann væri áheyrandi en meðan svo er ekki ætla ég að fjalla um annað efnisatriði sem tekið er inn í frv. og ég tel ástæðu til að vekja sérstaka athygli á vegna þess að það er til bóta. Það er brtt. við 19. gr. og skýring í nefndarálitinu að því er það varðar. En í 19. gr. frv. er kveðið á um hvernig með skuli farið gagnvart fyrirmælum samningsins sem koma fram í VI. kafla frv. að því er varðar markaðssetningu erfðabreyttra lífvera og hvernig með skuli farið gagnvart samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Þar hefur 2. mgr. verið breytt nokkuð og lagt til að hún orðist svo og ég leyfi mér að vitna til brtt.:

,,Umhverfisráðherra getur, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins og umsögn ráðgjafanefndar, bannað eða takmarkað hér á landi markaðssetningu tiltekinna erfðabreyttra lífvera eða vöru sem inniheldur þær ef hætta er á að markaðssetningin hafi í för með sér skaðleg áhrif á heilsu manna eða umhverfi. Það sama á við ef leyfisveiting samræmist ekki markmiðum laga þessara að öðru leyti eða samræmist ekki íslenskum lögum.``

Hér er verið að styrkja það orðalag sem fyrir var í greininni og enn frekar með nefndarálitinu sem að sjálfsögðu ber að hafa til hliðsjónar við túlkun laganna og einnig það sem kom fram í framsögu formanns nefndarinnar fyrir áliti hennar. Um þetta efni fengum við sérstaka greinargerð umbeðna frá umhvrn. og það var góð samstaða um það í nefndinni að ganga eins langt í þessu efni og eðlilegt væri og fært væri til þess að styrkja stöðu íslensks framkvæmdarvalds að þessu leyti. Að mínu mati er gengið frá þessu eins og kostur er í þeirri stöðu sem við erum innan samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði og með því að lögbinda það sem hér er lagt til.

Vegna þess að hv. þm. Össur Skarphéðinsson vék sér frá ætla ég aðeins að koma að atriðum sem ég tel rétt að nefna frekar vegna ræðu hans og ábendinga sem ég vil reyna að túlka allar á hinn jákvæðasta hátt því að ég efast ekki um að hv. þm. gengur gott eitt til. Ég held að það sé nokkurn veginn orðrétt sem ég tók niður í máli hv. þm. þar sem hann sagðist vera á móti því að nefndir séu að breyta frumvörpum ráðuneyta yfirleitt. Ég veit ekki hvort virðulegur forseti veitti þessu athygli. Ég hygg að það hafi raunar annar setið í forsetastól þegar hv. þm. flutti mál sitt. En þetta var af tilefni margra breytingartillagna umhvn. og það kemur mér satt að segja mjög á óvart að heyra það þótt skilningurinn hafi átt að verða eitthvað jákvæðari í garð nefndarinnar en ég fékk numið af máli hv. þm.

Hvert er verkefni okkar á hv. Alþingi? Hvert er verkefni okkar þingmanna og þingnefnda ef það er ekki einmitt í því fólgið að yfirfara með gagnrýnu hugarfari, og þá bið ég ekki um oftúlkun á því, þau mál sem er vísað til nefnda, jákvæðu hugarfari um málsmeðferð, að athuga mál hlutlægt, en jafnframt með gagnrýnu hugarfari varðandi hugsanlegar æskilegar breytingar á viðkomandi máli. Það vill svo til, og ég vona að það sé ekki bakgrunnur þessara orða af hálfu hv. þm., að umhvn. þingsins hefur í flestum stærri málum sem hafa verið lögð fyrir hana síðan nefndin var sett á laggir, og það vill svo til að ég hef átt sæti í nefndinni jafnlengi og hún hefur verið við lýði á vegum Alþingis, frá því 1991 að breyttum þingsköpum, að umhvn. þingsins hefur gert, þurft að gera eða verið sammála um að gera veigamiklar breytingar á þeim stjórnarfrumvörpum sem fram hafa komið á þessu sviði. Ég hef ekki orðið var við að þessi vinnubrögð af hálfu hv. nefndar hafi verið talin sérstaklega gagnrýniverð í þinginu almennt séð og þau mál sem hafa verið lögð fyrir af hálfu nefndarinnar og hún hefur verið sammála um hafa yfirleitt náð fram að ganga með góðu samþykki og þá væntanlega vegna þess að breytingartillögur af hálfu nefndarinnar hafa verið vel hugsaðar og réttmætar enda að því er stjórnarfrumvörp varðar yfirleitt unnin í samvinnu við eða með vitneskju og oft með samstarfi við það ráðuneyti sem á í hlut og þann ráðherra sem hefur hverju sinni setið þar í ráðuneyti. Þetta frv. er engin undantekning frá því. Þess vegna finnst mér að umhvn. þurfi ekki að hafa að neinu leyti slæma samvisku að því er snertir þær tillögur sem hún leggur fyrir þingið varðandi frv.

[15:00]

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra er kominn í sal og ég ætla að koma með svolitla ábendingu sem ég bið hæstv. ráðherra um að hlýða á en ekki taka til sín sérstaklega því að henni er ekki beint til hæstv. ráðherra að sérstaklega gefnu tilefni. Við stóðum frammi fyrir því sl. vor á 119. þingi að það var eftirrekstur af hálfu vökuaðila samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Það var verið að ýta á eftir að lögfesta tilskipanirnar tvær sem lágu til grundvallar því máli sem flutt hafði verið inn í þingið. Eins og gengur lagði nýr hæstv. umhvrh. áherslu á að þetta yrði afgreitt og vildi helst að nefndin afgreiddi málið frá sér fyrir lok 119. þings sem stóð aðeins í mánuð og hafði nefndin þá ef ég man rétt annan stóran lagabálk að fást við sem hún afgreiddi frá sér á ótrúlega skömmum tíma miðað við erfitt verkefni sem voru lögin um matvæli. Hún lagði mikið á sig í þeim efnum en treysti sér ekki til þess að ljúka málsmeðferð þessa frv. og tók því til við það eftir að það var endurflutt óbreytt af hálfu ráðuneytisins inn í þingið. Hún skilar því nú fyrst áliti sínu og breytingartillögum og hefur þó veitt þessu máli allan forgang í starfi sínu frá því í haust að því er stjórnarmálefni varðar. Annað hefur kannski ekki legið beint fyrir en að senda þau til umsagnar með eðlilegum hætti. Nú er málið afgreitt, að vísu á ystu mörkum miðað við þau bréf sem gengið hafa út frá eftirrekstraraðilum í EES-kerfinu. Talsmenn Eftirlitsstofnunar EFTA virtust vera farnir að hafa nokkrar áhyggjur af málinu og voru farnir að setja stjórnvöldum eins konar eindaga. Ég vil ekki túlka hversu alvarlegir þeir voru en þeir voru þó farnir að láta liggja að kærum o.s.frv. Væntanlega kemur ekki til neins slíks þar sem málið er á góðri leið til afgreiðslu í þinginu og hef ég enga samvisku af þeirri málsmeðferð sem málið hefur tekið í þinginu undir forustu umhvn. og formanns hennar sem skilar því af sér.

Ég held að þetta dæmi þurfi að vera okkur svolítill lærdómur og þá á ég sérstaklega við Stjórnarráðið. Það verður að ætla Alþingi Íslendinga tíma og tækifæri til að fara yfir nýmæli sem verið er að fjalla um, sumpart vegna þess að það tengist samningnum um EES, þannig að hægt sé að fara yfir það efnislega og lagfæra eftir því sem mönnum býður við að horfa að teknu tilliti til skuldbindinga okkar að öðru leyti. Málið er ekki einfaldlega að afrita tilskipanir og efnisatriði þeirra heldur að taka inn í löggjöfina þætti og atriði sem nauðsynlegt er að yfirsýn þingmanna og samkvæmt vilja og viðhorfum þingnefnda. Ég held að þetta sé einmitt ágætt dæmi um það og væri ágætt að hæstv. umhvrh. hvíslaði þessu að starfsbræðrum sínum og nefndi það jafnvel upphátt við ríkisstjórnarborðið einhvern tíma á góðri stundu til þess að hughreysta starfsfélaga sína sem eru með svipuna á bakinu frá eftirrekstrarstofnunum kenndum við EES. (Gripið fram í: Oft mæddir mjög.) Já.

Ég nefndi einkaleyfalöggjöfina áðan og íslensku einkaleyfalöggjöfina og tel það einmitt til fyrirmyndar að í iðnn. í formennskutíð hv. þm. Svavars Gestssonar og m.a. að tilstuðlan fulltrúa í umhvn., þáv. formanns umhvn., var fjallað sérstaklega um þennan siðferðilega þátt við mótun löggjafar. En á þessu sviði eru harðar deilur uppi í hinu alþjóðlega samfélagi og á einstökum svæðum. Þannig vill til að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur um sjö eða átta ára skeið verið að reyna að koma í gegn tillögum að því er varðar einkaleyfi og lagt þær tillögur sínar á þessu sviði fyrir Evrópuþingið sem hefur umsagnarrétt um mál. Þar hafa farið fram miklar og heitar umræður um þetta og á síðasta vetri, ef ég man rétt, gerðist það að tillaga sem þá lá frammi þar sem framkvæmdastjórnin taldi sig vera að koma til móts við gagnrýni af hálfu þingsins hlaut ekki meirihlutastuðning og var felld þrátt fyrir gífurlegan þrýsting og eftirrekstur þessa herskara af svokölluðum lobbíistum sem eru að starfi fyrir atvinnulífið, atvinnufyrirtækin og fjölþjóðafyrirtækin og hafa aðsetur í Brussel og lífsviðurværi af því að reka erindi þessara hagsmunaaðila.

Evrópuþingið hefur látið sig þessi efni miklu skipta og málin eru þar enn til umræðu. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir að framkvæmdastjórnin hafi ungað út einni útgáfunni enn nýlega að því er þetta varðar en um efni hennar hef ég ekki fréttir að færa.

Ég vek athygli á þessu vegna þess að auðvitað er einkaleyfaþátturinn verulegt atriði í sambandi við þróun afurða erfðabreyttra lífvera og málsmeðferð alla. Þar hafa Bandaríkin, sem hafa verið framarlega á þessu sviði í rannsóknum eins og á fleiri sviðum, haft forgöngu eða verið stórtæk í veitingu einkaleyfa og gengið langtum lengra en okkur íhaldssömum Evrópubúum, ég tala nú ekki um á Norðurlöndum, gott þykir. Bandaríkjamenn gáfu út fyrsta einkaleyfið um erfðabreyttar lífverur, um örverur 1980, ef ég man rétt, fyrstu plöntuna 1985 og fyrsta dýrið 1987. Síðan hefur komið geysileg skriða slíkrar einkaleyfagjafar. Þar keppast fyrirtækin, sem í mörgum tilvikum og kannski flestum eru fjölþjóðafyrirtæki, sum gífurlega stór, við að reyna að stækka sviðið og fá einkaleyfi fyrir sem flestum lífverum, erfðaefni sem flestra lífvera, til að geta einokað þær. Ekki vegna þess að það sé farið að nýta þær með beinum hætti, jafnvel ekki að rannsaka, heldur til að eiga aðgang að þeim og innheimt gjöld ef farið yrði að þróa framleiðslu á þessu sviði. Þarna er um að ræða lífverur sem ekki eru eingöngu bundnar við Bandaríkin sem slík, heldur er reynt að teygja sig sem víðast. Hér standa þróunarlöndin frammi fyrir gífurlega stóru dæmi, ekki bara varðandi einkaleyfatökuna heldur varðandi framleiðsluna á grundvelli þess hátækniiðnaðar sem framleiðsla á grunni erfðabreyttra lífvera vissulega er. Þetta er hátækniiðnaður, gífurlega kostnaðarsamur þar sem mörg hin fátækari lönd heimsins hafa litla möguleika á að leggja mikið af mörkum og eru jafnvel í þeirri stöðu, þegar til kastanna kemur að nýta eigin lífverur í þessu skyni, að standa frammi fyrir hindrunum að því er varðar einkaleyfalöggjöf.

Umsvifin á þessu sviði eru orðin ótrúlega mikil. Menn hafa verið að fá af því fréttir undanfarin missiri í nokkrum mæli. Ég gæti talið upp ótal dæmi um framleiðsluafurðir sem þarna eru á ferðinni. T.d. plöntur og dýr sem eru í vaxandi mæli viðfangsefni í erfðabreytingum, fyrst í rannsóknaskyni og síðan í framleiðsluskyni. Þarna er um stórframleiðslu að ræða þar sem margar af nytjaafurðum sem hafa verið framleiddar með náttúrulegum afurðum og þá auðvitað sumpart með náttúrulegum kynbótum sem svo eru kallaðar eða kynbótum sem ekki ganga inn á erfðaefni og eru að ryðja sér braut, slíkar afurðir koma í stað þeirra náttúrulegu afurða sem fyrir voru.

Eitt dæmi um þetta er erfðabreytt maísplanta sem Kanadamenn hafa rannsakað og erfðabreytt og er núna að fara út á markað sem útsæði. Þeir eiginleikar sem ræktaðir hafa verið upp gera það að verkum að þessi erfðabreytti maís þolir skordýr. Það þarf ekki að kosta til með skordýraeitri jafnmiklu og áður og hann fær þannig samkeppnislegt forskot. Sojabaunir eru annað dæmi. Næpur eða næputegund sem þekkt er og Hollendingar hafa verið að ryðja braut markaðslega séð er enn eitt dæmi. Þetta er bara til að nefna eitthvað í þessum efnum, en fjármagnið sem þarna er á bak við mælist í risastórum upphæðum og væri svo sem ástæða til að nefna eitthvað í því sambandi. Ég get t.d. nefnt eina tölu sem ég tek út úr grein sem birtist í The Daily Telegraph og Morgunblaðið vitnaði til 31. desember sl., með leyfi forseta. Þar segir:

,,Fjárfestingin í líftækni um allan heim er mikil, um 400 milljarðar kr. árin 1991--1992.``

Gagnrýnendur segja að hreinræktuð gróðafíkn sé eini hvatinn, stendur einnig þar. Þetta er til að nefna tölu sem er þó fjögurra ára gömul. Tímabilið 1991--1992 eru þetta 400 millj. íslenskra króna og þessar upphæðir eru orðnar langtum hærri nú og þarna fer samkeppnin síharðnandi. Hér er því við mikið að fást í þessum efnum og gild ástæða til þess að móta sem skýrastar reglur og líta á málið í heild sinni.

Það getur verið gott mál svona þröngt séð að geta hafið framleiðslu á afurð sem stenst náttúrulega óvini ef svo má segja, sýkingu af sveppavöldum eða árásir skordýra o.s.frv. En menn skyldu hafa varann á því að fyrr en varir geta viðkomandi tegundir farið að sýna á sér óvæntar hliðar sem ekki eru jákvæðar fyrir heildarhagsmuni eða þróunina almennt. Hinu er ekki að neita að margt af því sem þróað hefur verið í þessum efnum er nánast eins og lygasaga, það mætti jafnvel nota orðið töfralausnir ef menn vildu orða það jákvætt, og í ætt við það sem menn hafa lesið í vísindaskáldsögum og öðru slíku fram að þessu.

Við erum hér sem sagt á Alþingi Íslendinga að fást við nýmæli þar sem er þessi löggjöf og erum að reyna af hálfu umhvn. og umhvrn. okkar að reyna að vanda verkið.

Það er tekið fram, virðulegur forseti, af frsm. og í nefndaráliti að frv. þetta taki ekki til afurða erfðabreyttra lífvera. Það er ekki uppfinning umhvn. heldur var frv. þannig fyrir lagt. Það gildir einnig um þær tilskipanir sem vitnað er til og frv. tekur tillit til, þar er ekki fjallað um afurðir erfðabreyttra lífvera, þ.e. ef afurðirnar innihalda ekki lifandi erfðabreyttar lífverur. Þar liggja mörkin. Þessa er getið af okkar hálfu til þess bara að það sé alveg skýrt en ekki vegna þess að nefndin leggi mat á það hvort það hefði átt að taka með í reikninginn.

[15:15]

Þá kem ég að atriði sem ég vil taka með inn í umræðuna og það er einmitt hin alþjóðlega umræða um afurðir erfðabreyttra lífvera og hvernig með skuli farið því að á því er ekki tekið hér. En það mál er til meðferðar annars staðar og í öðru samhengi og er mjög umdeilt mál. Og í því sambandi langar mig að spyrja hæstv. umhvrh. alveg sérstaklega um afstöðu íslenskra stjórnvalda til kröfunnar um að merkja skuli fyrir neytendur framleiðsluafurðir erfðabreyttra lífvera sem ekki innihalda lifandi erfðabreyttar lífverur og eru þess vegna ekki hluti af þeim reglum sem hér er verið að setja. Þessi mál eru í bullandi umræðu. Þau eru til meðferðar innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Ég hef hér grein úr Sænska dagblaðinu frá 31. desember síðastliðnum undir yfirskriftinni ,,Genmanipulerad mat til butiker`` sem ég bið hæstv. forseta að gera aðgengilega fyrir hæstv. ráðherra því að þar er vikið að þessu máli. Þar segir m.a. að kommissar Anita Gradin hafi orðið undir með sín sjónarmið og kröfu varðandi þetta efni, þ.e. að gera það að gildandi reglu innan Evrópusambandsins að það þurfi að merkja framleiðsluafurðir sem boðnar eru til sölu á markaði og eru afurðir erfðabreyttra lífvera, taka það fram þannig að notandinn viti hvers hann er að neyta, hvað hann er að kaupa. Það segir um það í þessari grein að sænska afstaðan, og þetta er tilvitnun í sænskt blað, sé sú að neytendum af heilsufarslegum ástæðum og vegna siðferðilegra viðhorfa beri að fá að vita hvort líftækni hafi verið notuð við framleiðslu viðkomandi neysluvara. Eitthvað á þessa leið er hér, virðulegi forseti, að finna í þessu tilvitnaða blaði.

Í greinargerð sem umhvn. fékk frá umhvrn. dags. 8. febrúar 1996 þar sem fjallað var um afurðir erfðabreyttra lífvera, er tekið fram með leyfi forseta:

,,Hvað varðar umbúðamerkingar vöru sem inniheldur afurðir erfðabreyttra lífvera eru skiptar skoðanir. Þetta á sérstaklega við um matvæli. Í sambandi við væntanlega tilskipun ESB um ,,ný matvæli`` (novel foods) hefur Ísland verið fylgjandi ströngum reglum um merkingar matvæla sem gerð eru úr eða innihalda erfðabreyttar lífverur. Einnig hefur verið lagt til að matvæli verði sérstaklega merkt ef þau innihalda afurðir erfðabreyttra lífvera sem hafa veruleg áhrif á efnasamsetningu þeirra og gerð en ekki í þeim tilvikum þar sem um sé að ræða lítið magn íblöndunarefna, hjálparefna eða aukefna sem framleidd eru með erfðabreyttum lífverum og sem koma í stað annarra sambærilegra efna.`` Nú bið ég hæstv. ráðherra að taka sérstaklega eftir: ,,Noregur og Danmörk hafa sett fram kröfur um að öll matvæli sem innihalda erfðabreyttar lífverur eða afurðir þeirra verði merkt sérstaklega sem Ísland hefur ekki stutt.`` Ég endurtek: sem Ísland hefur ekki stutt. Og áfram: ,,Samkvæmt nýlegum upplýsingum er stór hluti ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu mótfallinn svo ströngum merkingaskilyrðum.``

Hér er um að ræða að mínu mati mjög stórt mál. Og þó að það sé ekki hluti af því frv. sem hér er borið fram og liggur fyrir til 2. umr., þá er þetta mál sem er nátengt frv., þar sem það er afleiðing þess sem leyft kann að verða samkvæmt frv. og varðar alþjóðlega afstöðu að þessu leyti. Þarna í svari umhvrn. er talað um Noreg og Danmörku og mér sýnist óhætt að bæta Svíþjóð við samkvæmt þeirri tilvitnun sem ég var að vitna til úr Sænska dagblaðinu frá síðasta degi liðins árs. Ég spyr hæstv. ráðherra nánar eftir því hvort þetta sé hans vilji sem hér er verið að lýsa. Hverjir eru það sem um þetta hafa fjallað? Hvernig hefur verið fjallað um þetta atriði í íslenska stjórnkerfinu? Er það virkilega svo að Íslendingar ætli ekki að leggjast á sveif með sjónarmiði notenda víða um heim? Stendur Ísland ekki að baki því sjónarmiði stjórnvalda á Norðurlöndunum sem Anita Gradin kommissar í Evrópusambandinu reyndi að knýja fram en fékk ekki nægan stuðning við þar á bæ? Líklega hefur hún orðið undir í meirihlutaatkvæðagreiðslu og greinilega fyrst málið gekk ekki fram, þá hefur verið greitt atkvæði samkvæmt þeirri reglu þar sem væntanlega um vísun til vöru væri að ræða en ekki umhverfismál í þrengri merkingu. Þetta er alveg ótrúlegt.

Þó ég taki ekki undir allt sem kemur frá neytendasamtökum eða undir þeirra merki skulum við segja, virðulegur forseti, þá finnst mér að við þurfum að sjálfsögðu að gæta að þeim sjónarmiðum. Ég bendi á það fyrir hæstv. ráðherra að einmitt í þessari blaðagrein er vitnað til alþjóðaneytendasamtaka sem finnast í 90 löndum sem gera þessa kröfu sem ég hef verið að vitna til en Ísland virðist ekki taka undir, jafnsjálfsagt og það væri.

Virðulegur forseti. Ég hef talið ástæðu til þess að koma að þessu máli við 2. umr. svo ítarlega m.a. vegna þess að ég hef átt beinan hlut sem nefndarmaður í umhvn. að þeim breytingartillögum sem hér eru og kannski átt hlut í að þær voru teknar upp sérstaklega. Ég hef getið þar um eitt meginatriði í upphafi míns máls. Ég vil undir lokin nefna tvö, þrjú atriði í viðbót í örstuttu máli.

Það er í fyrsta lagi að því er varðar þá eftirlitsstofnun sem ætlað er að fara með málið fyrir hönd umhvrn. sem er Hollustuvernd ríkisins, að nefndin tekur þar undir með flutningsmönnum eða þeim sem lögðu frv. fyrir að það verði Hollustuverndin sem verði leyfisveitandi eða fjalli um starfsleyfi, rannsóknarleyfi og annað sem lýtur að þessu máli. En við hljótum um leið að leggja á það ríka áherslu að þessari stofnun verði gert kleift að standa sómasamlega að vinnu þessara mála eins og löggjafinn ætlast til með því frv. sem hér er borið fram. Ég segi þetta m.a. vegna þess að ég tel að það fylgigagn frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. sem fylgdi þessu máli inn í þingið sé með öllu óraunhæft ef það á að takast af hálfu Stjórnarráðsins að gera þau ákvæði virk sem hér er um að ræða. Og það á ekki að bíða eftir einhverjum óhöppum eða kreppu í þessum efnum. Það verður að byrja á því að þjálfa upp fólk þekkingarlega, ráða til fólk þekkingarlega og e.t.v. að þjálfa það sérstaklega til þess að ráða við þau verkefni sem hér eru og síðan að sjálfsögðu að draga til þekkingu úr öðrum sérfræðistofnunum eins og gert er ráð fyrir í frv. og með breytingartillögum við frv. Mér fannst ekki mjög skynsamlegt það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði um þetta efni í aðfinnslutón gagnvart nefndinni og frv. eins og það liggur nú fyrir af nefndarinnar hálfu. Við erum með mjög skýrum hætti að hvetja til þess að bæði við málsmeðferð og þegar umsagna er leitað, þá verði leitað víða fanga í þessum efnum. En hvar hefðum við átt að nema staðar? Ef við hefðum farið að telja upp þær sérfræðistofnanir sem Hollustuvernd eða sá aðili sem fjallar um málið hefði átt að kveðja til sögunnar þá hefðu það getað orðið býsna margir. Ég held að það sé atriði sem einfaldlega sé betur komið í þeim almenna ramma sem þessu er búinn hér.

Síðan aðeins varðandi ráðgjafarnefndina. Það er tillaga um að fjölga í níu manns í þessari ráðgjafarnefnd. Sú tillaga nefndarinnar fékk einkunnina sviðaveisla af hálfu fyrrv. umhvrh., hv. 15. þm. Reykv. Ég vil leyfa mér að andmæla einkunnagjöf af þessu tagi. Ég tel einmitt vegna þess að málið er margbrotið, að þá sé mjög skysamlegt að víkka þarna rammann að því er snertir fjölda nefndarmanna. Við nefnum sérstaklega tvö álitaefni þar sem þarf að tryggja þekkingu innan nefndarinnar án þess að tína til önnur svið. Það tel ég líka vera skynsamlega að staðið.

Nefndarinnar bíður mikið hlutverk. Þess má geta að Svíar hafa í hliðstæðri nefnd 13 manns og Norðmenn eru að ég held með yfir 20 manna nefnd sem heitir bioteknologi-nefndin. Við erum því ekki að slá nein met í þessu efni en töldum einmitt að þarna væri ratað meðalhóf að teknu tilliti til efnis máls.

Virðulegur forseti. Að endingu þetta um leið og ég þakka samnefndarmönnum mínum í umhvn. fyrir samstarfið við meðferð þessa máls og umfjöllun alla og það góða samstarf og sammæli sem varð um breytingartillögur við afgreiðslu málsins úr nefndinni, þá vil ég vekja á því athygli að það er eftir mjög stórt svið sem löggjafinn þarf að fjalla um fyrr en seinna á annan og víðtækari hátt en gert hefur verið fram að þessu. Það er það sem snýr að manninum sjálfum í víðu samhengi að því er varðar erfðabreytingar og erfðatækni. Þó að inn í þingið hafi komið mál eins og frv. um tæknifrjóvganir, þá vantar mikið á að um þessi efni hafi verið fjallað af nægilegri breidd að því er varðar manninn, rannsóknir, læknisfræðina og annað sem snýr að fikti við stafróf lífsins, eins og ég held að ég hafi leyft mér að kalla þetta við 1. umr. málsins, til þess að taka þar inn það víða sjónarhorn sem reynt er að taka með inn í þetta mál að því er varðar aðrar lífverur en manninn því að hann stendur utan við sviðið þó að hann sé gerandi að því er varðar þetta frv. Ég tel sem sagt mikla þörf á því að það verði farið í það verkefni að undirbúa almenna löggjöf að því er varðar erfðabreytingar og allt sem að þeim lýtur og snertir manninn sjálfan. Kannski væri rétt að hreyfa því með þingmáli hér af minni hálfu eða að ráðuneytið taki sig til. Sviðið er mjög stórt og vandasamt en það er jafnframt afar brýnt. Ég vona að við getum innan tíðar staðið hér með löggjöf í þessum efnum sem tekur mið af hraðfara tækniþróun á þessu sviði, ekki síður að því er manninn snertir heldur en aðrar lífverur, þar sem álitaefnin hrúgast upp og þar á meðal siðferðileg álitamál.