Samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 15:45:22 (3715)

1996-03-07 15:45:22# 120. lþ. 103.91 fundur 216#B samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:45]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Í upphafi held ég að það sé rétt til þess að skýra síðan framhald umræðunnar að menn átti sig á því hvert sé hlutverk Samkeppnisstofnunar. Hlutverk Samkeppnisstofnunar er skýrt í 5. gr. þeirra laga þar sem gert er ráð fyrir að samkeppnisráð eigi að framfylgja boðum og bönnum laganna og í öðru lagi að ákveða aðgerðir gegn samkeppnishamlandi hegðun fyrirtækja, óréttmætum viðskiptaháttum, að stuðla að auknu gagnsæi markaðarins og þar fram eftir götunum. Á grundvelli 5. gr. getur síðan samkeppnisráð fylgt því eftir að þeir aðilar sem brjóta í bága við 5. gr. standi við ákveðið ákvæði samkeppnislaga og þannig hefur samkeppnisráð tækifæri til og möguleika á með því að beita refsingum, beita sektum að ná því fram sem samkeppnisráð leggur til við viðkomandi aðila um að breyta varðandi háttsemi sína og hegðan. En 19. gr. samkeppnislaganna hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Ef samkeppnisráð eða Samkeppnisstofnun telur að ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn markmiði laga þessara og torveldi frjálsa samkeppni í viðskiptum skal vekja athygli ráðherra á því áliti. Slíkt álit skal einnig birta almenningi á fullnægjandi hátt, t.d. með fréttatilkynningu til fjölmiðla eftir að það hefur verið kynnt ráðherra.``

Það er á grundvelli þessarar greinar, 19. gr. samkeppnislaganna, sem Samkeppnisstofnun hefur núna sent álit til landbrh. þar sem vakin er athygli á samkeppnishindrunum Félags eggjaframleiðenda eins og hv. þm. vitnaði í í framsöguræðu sinni úr fundargerðum Félags eggjaframleiðenda og þeirri samantekt sem Samkeppnisstofnun hefur tekið saman og sent til hæstv. landbrh.

Það má taka álit Samkeppnisstofnunar frá 16. febrúar og þær meginniðurstöður saman í þrennt.

Í fyrsta lagi eru menn sammála um að egg teljist vera búvara og falli þar af leiðandi undir lög nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Með öðrum orðum þýðir þetta að samkeppnislög eiga ekki við varðandi ákvörðun um verðlagningu. Hins vegar gerist það eins og hv. þm. vitnaði í að þegar verðlagsnefnd hefur ákveðið hvert verðið skuli vera þá fer Félag eggjaframleiðenda að bjóða lægra verð sem brýtur í bága við anda laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Býður fyrst 12% en síðan þegar þeir fá tilboð upp á 21% afslátt frá Ríkisspítölunum þá gera þeir athugasemdir við það tilboð og segja að það sé bannað samkvæmt búvörulögum að bjóða lægra verð en þar er ákveðið, sem er rétt. Það er þetta sem samkeppnisráð gerir athugasemdir við og telur að þegar Félag eggjaframleiðenda er farið að bjóða lægra verð heldur en það verð sem ákveðið er af verðlagsnefnd þá sé orðið um frjálsa verðlagningu að ræða.

Í öðru lagi telur samkeppnisráð að Félag eggjaframleiðenda brjóti búvörulögin með því að bjóða þessa afslætti.

Í þriðja lagi gera þeir athugasemdir við skiptingu markaðarins.

Samkvæmt samkeppnislögum er bannað að skipta markaði milli fyrirtækja eða milli framleiðenda og það er hvergi í búvörulögum sem slíkt er heimilað. Þess vegna tel ég að það sé ótvírætt brot sem þarna hefur verið framið að ætla að gera tilraun til, eins og gert er með bréfi frá Félagi eggjaframleiðenda til framleiðenda þann 20. júní 1994, að skipta markaðnum.

Þetta álit er sent til landbrh. og Samkeppnisstofnun vekur athygli hæstv. ráðherra á þeim samkeppnishindrunum sem þarna eru í gangi og óskað er eftir að gerðar verði þar breytingar á. Hins vegar er það svo að Samkeppnisstofnun getur ekki fylgt þessu eftir. Það eru fyrst og fremst störf ráðuneytisins sem nú taka við og ég veit að hæstv. landbrh. er að láta skoða þessa greinargerð og þetta álit sem hefur komið frá Samkeppnisstofnun með tilliti til þeirra laga sem ég hef hér vitnað í.

Hvað framhaldið snertir og snýr að Samkeppnisstofnun þá er það ljóst eins og fram kemur í því áliti sem hv. þm. vitnaði í áðan að Samkeppnisstofnun mun fylgja eftir eftirliti með Félagi eggjaframleiðenda og einstökum framleiðendum þannig að það sé skýrt (Forseti hringir.) að viðkomandi félagasamtök geti ekki haldið áfram uppteknum hætti sem hér hefur komið fram við umræðuna. Það er gert í þeim tilgangi að tryggja að um takmarkaða samkeppni sé að ræða og fyrst og remst það sem snýr að markaðsskiptingunni en frá því 1. des. 1995 var tekin ákvörðun um að heildsöluverð eggja skyldi gefið frjálst tímabundið en það getur auðvitað breyst. Það er ákvörðun fimm manna nefndar að taka ákvörðun um slíkt.