Samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 16:02:28 (3720)

1996-03-07 16:02:28# 120. lþ. 103.91 fundur 216#B samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[16:02]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég vakti skilmerkilega athygli á því hvað viðgengst í skjóli Sjálfstfl., þ.e. óréttmætir viðskiptahættir. Það er ekki tími til að rekja það nákvæmlega, en það er það sem málið snýst um. Ef sjálfstæðismenn hefðu verið trúir því sem þeir segja oft á tyllidögum, hefðu þeir sagt: Hér hafa átt sér stað mistök við lagasetningu og útfærslu. Hér leiðréttum við vitaskuld framkvæmd og lög mála þannig að það svari til nútímaviðskiptahátta. Það er ekki gert. Það er snúist til varnar fyrir þetta kerfi og það er ekki að ástæðulausu að menn gera það. Hér kemur líka fram í þessum úrskurði þegar ráðuneytið heimilaði ráðstöfun á sérstöku fóðurgjaldi til kvótakaupa varðandi þennan þátt þegar þessi mál voru til umræðu. Og það var í ráðherratíð Halldórs Blöndals sem þessir hlutir gerðust. Það er enginn munur, hv. þm. Árni Mathiesen, á stefnu Framsfl. og Sjálfstfl. í þessu máli. Það er það sem ég er að draga fram. Við getum rætt mjög ítarlega um Póst og síma og hv. þm. þekkir mætavel stefnu Þjóðvaka í því máli. Við viljum hafa póstinn í óbreyttu formi. Við viljum skoða formbreytingu á símanum, hvort sem það verður þá í sjálfstæða stofnun eða hlutafélag. Það verður að fara betur yfir það og við höfum hvorki sagt af eða á með það. Sjálfur held ég að hlutafélagsformið væri mjög heppilegt, en það eru fjölmörg álitamál varðandi þann þátt. Og það er útúrsnúningur, hv. þm., að koma með þá umræðu inn í þetta, en það er allt í lagi, ég get svarað þeirri spurningu. En hann svaraði ekki því sem ég beindi til hans, sem snýst um stefnu Sjálfstfl. í reynd, hvað hún er afturhaldssöm og hvað hún er fánýt eins og sést á fjarveru allra ráðherra Sjálfstfl. Mér finnst það lýsa málinu best af öllu.