Náttúruvernd

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 17:34:21 (3729)

1996-03-07 17:34:21# 120. lþ. 103.9 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, HG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[17:34]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Mér þykir það svolítið leitt að ekki skuli vera meiri þátttaka í umræðum um þetta mikilvæga mál. Mér finnst málaflokkurinn verðskulda að hann sé ræddur hér og gaumgæfður og að umhvn. fái veganesti frá þingheimi en það sé ekki sá sem hér talar, sem er jú nefndarmaður í þeirri þingnefnd, sem er að lýsa viðhorfum sem auðvitað má koma á framfæri í nefndinni en ég mundi þó að sjálfsögðu engu að síður koma á framfæri hér inni í þingsal líka vegna þess að mál þetta á að ræða opið. Ég vil því nota tækifærið til þess að bæta við svolitlu frá því sem ég gerði í fyrri ræðu minni jafnhliða því sem ég drep á kannski fáein atriði sem hæstv. ráðherra nefndi í sínu máli og ég þakka honum fyrir viðbrögð.

Það sem kannski er ástæða til að nefna sérstaklega í því samhengi og tengist framsögu hæstv. ráðherra er sú hugsun að taka þennan þátt núna sérstaklega út úr. Hann er undirbúinn af tveimur hv. þm. ásamt embættismönnum og síðan á að skipa nefnd með breiðum tilnefningum til að endurskoða lögin þannig að tillögur gætu legið fyrir að tveimur árum liðnum, einu og hálfu til tveimur árum. Mér finnst þetta vera mjög skothend vinnubrögð og það m.a. í ljósi þess sem var undirstrikað af nokkrum hv. þm. við umræður fyrr í dag um frv. til laga um erfðabreyttar lífverur. Þessi mál hafa ekki fengið umfjöllun í þinginu eða í þingnefnd eftir skýrum flokkspólitískum áherslum eða línum eins og það er stundum kallað. Það stafar kannski af því að flokkarnir hafa ekki nógu skýra stefnu hver og einn til þess að skapa slík átök enda eru þau ekki það sem maður er að lýsa eftir eða eru ákjósanleg endilega. Þvert á móti er mjög gott ef hægt er að vinna málin án þess. En þess vegna hefði ég í sporum hæstv. ráðherra kallað til fólk til þess að draga inn sjónarmið víðar að heldur en frá stjórnarliði eingöngu í þessu máli og fyrirspurn mín fyrr á þinginu þar að lútandi var einmitt til að hvetja til þess að málin yrði tekin þeim tökum til þess að greiða fyrir endurskoðun löggjafar um þessi mál. En þá boðaði hæstv. ráðherra eitthvað í þá veru sem síðan gekk eftir og liggur hér fyrir í þessum búningi. Mér finnst þetta svolítið aftan að siðunum farið að ætlast síðan til þess, eftir að þetta mál hefði fengið afgreiðslu, ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt, að þá verði leitað til þingflokka til þess að fjalla um það sem eftir stæði, allra þingflokka á Alþingi. Það er eitthvað svolítið súrt í þessu og ekki alveg með þeim hætti sem farsælt gæti talist vegna þess að ég held að það hefði greitt fyrir málinu, og eins á fyrra kjörtímabili, ef það hefði verið fært til enda sem þáv. hæstv. umhvrh., Eiður Guðnason, reyndi, að setja niður nefnd með fulltrúum þingflokka sem síðan var afmunstruð í miðjum klíðum, kannski með þeim afleiðingum að við stöndum hér og erum að ræða frv. um sömu efni í þriðja sinn og þriðja búningi, þeir sem hafa fylgt þessari umræðu eftir og verið þar þátttakendur. En ekki meira um það. Ég er ekkert að kveinka mér í þessu. Ég tek þessu máli eins og það kemur en þá hefur maður því miður ekki haft þá aðstöðu að koma að sjónarmiðum í gegnum sinn þingflokk sem hugsanlega hefði átt að vera þarna þátttakandi og hefði að mínu mati verið mjög réttmætt, sem og aðrir þingflokkar á Alþingi. En kannski reynir á þetta áður en lýkur.

Varðandi stjórn Náttúruverndar ríkisins vil ég aðeins undirstrika það að jafnhliða og samvinna við önnur ráðuneyti og stofnanir, rannsóknarstofnanir sem aðrar, er auðvitað nauðsynleg og sjálfsögð í stjórnkerfinu, þá er það ekki góður svipur af því eða skynsamlegt að fara að kalla yfir sig tilnefningar annarra ráðuneyta inn í stjórnir. Mér er ljóst að þetta hefur verið gert í fyrri tíð í einstökum tilvikum. Ég minnist þess að fjmrn. var sums staðar inni með fulltrúa ásamt fagráðuneyti svona til að vakta, það var einkum þar sem um eignarhlut var að ræða í fyrirtækjum eða við slík tilvik. En þetta er ekki algengt í okkar stjórnkerfi, það fullyrði ég. Og svo mikilvægt sem það er að samþætta ferðamál eins og meðferð auðlinda almennt og þar með atvinnumálin umhverfismálum og viss viðleitni er í gangi þar að lútandi, þá getur það gerst með öðrum og skynsamlegri hætti heldur en hér er verið að efna til.

Ég vil nefna í sambandi við friðlýsingarmálin svona aðeins til umhugsunar að það má vel búa við kerfi ekki ósvipað því og hér er verið að leggja til. Mér finnst hins vegar svolítið sérkennilegt hvernig efnt er til samráðs eða tillögugerðar um þessi efni og valið er úr. Það má segja að Náttúruverndarráð sé eðlilegur aðili. Spurning hvort á að lögbjóða það. Og sama gildir í sumum greinum um stofnun eins og Náttúrufræðistofnun Íslands sem að sjálfsögðu er mikilvægur aðili sem undirstöðustofnun í náttúrufræðum. En ég spyr t.d. um náttúrustofurnar. Þær eru ekki nefndar þarna og ætli það séu ekki býsna margir aðilar sem teldu sig hafa orð að leggja í belg í sambandi við æskilega friðlýsingu og verndun lands. Ég gæti nefnt þar marga, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Jarðfræðistofnun Háskólans, Líffræðistofnun Háskólans, svo örfá dæmi séu nefnd, um aðila sem fjalla um mál og búa yfir þekkingu sem getur gagnast að þessu leyti. Því held ég að það sé skynsamlegt að líta aðeins yfir þessi atriði svolítið betur, aðallega út frá þeirri forsendu að enginn finni sig afskekktan sem á að hafa aðgang að máli.

Ég vek athygli á því að náttúrustofur landshlutanna, sem ég kalla stundum svo en í frv. eru kallaðar náttúrustofur sveitarfélaga, sem ég held að sé nú ekki alveg réttnefni samkvæmt lögunum, það eru þær stofnanir sem hafa langskýrustu hlutverki að gegna sem stuðningsaðilar við náttúruvernd vítt um landið og eiga að koma inn í bæði friðlýsingarmál og eftirlit beinlínis samkvæmt lögunum. En þær eru hvergi nefndar á nafn í sambandi við friðlýsingarmálin. Ég held því að þetta þurfi svolítillar skoðunar við.

Síðan örstutt, virðulegur forseti. Það eru hér nokkur efni sem ég vil nefna. Að ætla að stofnsetja þjóðgarða utan ríkislanda, þ.e. á landi sem ekki er í ríkiseign. Mér finnst það mikið álitamál hvort á að hverfa að því ráði. Ég er ekki viss um að það sé til bóta þó það hafi vissar jákvæðar hliðar. Varðandi samninga við aðra aðila um eftirlit og slíkt þá getur það verið ágætt ef vel er um það búið og góð samvinna um það efni, tryggilega frá því gengið. Að aðrir en ríkið geti staðið að rekstri gestastofa, það tel ég út af fyrir sig jákvætt. Síðan kemur ákvæðið um gjaldtökuna, aðgangseyri að svæðum þar sem spjöll hafa orðið eða eru yfirvofandi. Þetta finnst mér alveg furðulega ,,frumleg`` tillaga. Mér finnst einkennilegt ef menn ætla að fara að afla tekna með þessum hætti eða gera sér vonir um það því ég held að þetta gefi minna en ekki neitt. Almennt séð er ég ekki meðmæltur því að þannig sé staðið að málum. Síðan varðandi eftirlitið, þá er erfitt að átta sig á hvað átt er við með sérstöku eftirliti greiddu af framkvæmdaaðilum (Forseti hringir.) og síðan er hér annað eftirlit sem á að setja gjaldskrá um en samkvæmt umsögn fjmrn. virðist það eiga að vera kostnaðarlaust, unnið sem sagt af öðrum þannig að þetta rímar ekki alveg saman.

Um umsögn fjmrn. þyrfti ég að halda aðra ræðu, virðulegur forseti. Það verður að gera við annað tækifæri. Það er satt að segja alveg dæmalaust fylgigagn, sagt að það sé unnið í samráði við umhvrn. Ég vona að það sé ekki rétt umhvrn. vegna og ég hefði þar margar athugasemdir að gera en ég að sjálfsögðu tek ekki tíma í það.