Náttúruvernd

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 17:49:03 (3731)

1996-03-07 17:49:03# 120. lþ. 103.9 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[17:49]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki svo að frv. sé með heimild til almennrar gjaldtöku. Ég væri ekki meðmæltur því heldur en það er með þessa heimild til takmarkaðrar gjaldtöku. Í 35. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Náttúruvernd ríkisins getur ákveðið gjald fyrir veitta þjónustu stofnunarinnar.`` --- Það er þjónusta. --- ,,Þá getur Náttúruvernd ríkisins enn fremur ákveðið gjald fyrir aðgang að náttúruverndarsvæðum þar sem spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum sjöllum.

Tekjum skv. 1. mgr. skal varið til eftirlits lagfæringar eða uppbyggingar á sama svæði og þeirra var aflað.``

Þarna er mjög takmarkandi heimild. Ég fæ engan botn í hvernig þetta er hugsað í framkvæmd. Eins og ég sagði er um þennan fjárhagsramma þannig búið samkvæmt fylgiskjalinu á bls. 22--24 að það er næstum því sögulegt plagg. Fyrir utan það að þar segir að erfitt sé að leggja mat á áhrif frv. á útgjöld ríkissjóðs þar sem ekki liggur fyrir starfs- og rekstraráætlun fyrir hina nýju stofnun. Það varðar það sem ég nefndi. Þarna er þessi nýja stofnun nefnd með skammstöfun, NVRR. Er það virkilega áform hæstv. umhvrh. að fara að kalla Náttúruvernd ríkisins, virðulega stofnun, NVRR. Ég vil ekki trúa því að þetta sé ættað úr umhvrn. og bið hæstv. umhvrh. að reyna að eyða þessu ónefni hið allra fyrsta úr pappírum. Ég get a.m.k. ekki fellt mig við þetta. Skammstafanir ríða allt of víða húsum nú til dags og þá best að hafa þær ekki í þessum búningi.

Þetta verður að nægja hér, virðulegur forseti, af minni hálfu sem andsvar.