Sameining ríkisviðskiptabanka

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 15:10:35 (3735)

1996-03-11 15:10:35# 120. lþ. 104.1 fundur 217#B sameining ríkisviðskiptabanka# (óundirbúin fsp.), SvG
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[15:10]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Svar hæstv. ráðherra kom mér út af fyrir sig ekki á óvart. Það er í samræmi við það almenna einkavæðingarkast sem ríkisstjórnin er haldin og Framsfl. hefur tekið þrátt fyrir mikla svardaga hér á síðasta kjörtímabili um allt annað. Það er sem sagt ákveðið að halda sínu striki, að einkavæða bankana, að gera þá að hlutafélagi hvað sem öllum staðreyndum líður. Þó að fyrir liggi að það væri fjárhagslega miklu hagstæðara og mundi stuðla að meiri sparnaði að sameina þessa tvo banka, að þar með yrði til sterkur íslenskur banki í alþjóðlegu peningakerfi, að þar með væri sköpuð leið til að taka á stjórnunarvanda þessara tveggja banka og að þar með væri hagsmunum eigandans, þ.e. þjóðarinnar langbest borgið. Samt á að halda áfram með þennan einkavæðingarstrekking. Ég vil segja það af þessu tilefni, hæstv. forseti, að við í þingflokki Alþb. og óháðra höfum ákveðið með hliðsjón af þessu og því sem við áttum von á frá hæstv. ráðherra að flytja þingmál sem leiðir þetta mál til lykta í þessari virðulegu stofnun þó að ráðherrann sé á móti því.