Sameining ríkisviðskiptabanka

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 15:14:19 (3738)

1996-03-11 15:14:19# 120. lþ. 104.1 fundur 217#B sameining ríkisviðskiptabanka# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[15:14]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að það er stefna ríkisstjórnarinnar að breyta ríkisviðskiptabönkunum báðum í hlutafélög. Það er gert í þeim tilgangi að opna fyrir þann möguleika að nýir aðilar komi að bönkunum með nýtt eigið fé til að styrkja eiginfjárstöðu þeirra í fyrirsjáanlegri vaxandi samkeppni við erlenda banka. (SvG: Selja þá.) Það er ekki verið með þessu að tala um, hv. þm., að selja eignarhluti ríkisins í þessum bönkum vegna þess að með því er ekki verið að styrkja eiginfjárstöðu þeirra. Þar er aðeins verið að skipta um eignarhald á því eigin fé sem fyrir er í bönkunum en um leið er líka með þessari breytingu sem boðuð er verið að jafna samkeppnisaðstæður milli hlutafélagabankans og ríkisviðskiptabankanna sem er algjörlega nauðsynlegt.