Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 16:12:58 (3756)

1996-03-11 16:12:58# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[16:12]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er skylda varðandi öll stjfrv. að leita álits fjárlagaskrifstofu svo hægt sé að áætla hvað viðkomandi stjórnarfrumvörp hafi í för með sér mikinn kostnað fyrir ríkissjóð. Þess vegna er leitað álits fjárlagaskrifstofu. Ég margtók það fram, virðulegi forseti, hvernig þetta væri orðað hjá fjmrn. Ég tel mjög sérkennilegt ef fjmrn. er að geta sér hér til um tölur, ef það er ekkert á bak við þær hjá fjárlagaskrifstofunni eða fjmrn. sem hefur það hlutverk að meta kostnað fyrir ríkissjóð vegna stjórnarfrumvarpa.

Ég vænti þess, virðulegi forseti, að hæstv. dómsmrh. telji sig ekki hafa svarað þeim fyrirspurnum sem ég beindi til hans með orðum sínum áðan. Ég mun ítreka þær í umræðunni á eftir vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að fá upplýsingar og svör við þeim fyrirspurnum sem ég lagði fyrir dómsmrh.