Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 16:18:27 (3760)

1996-03-11 16:18:27# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[16:18]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér skilst að hv. síðasti ræðumaður hafi verið formaður þeirrar nefndar sem hefur fjallað um skuldavanda heimilanna og þar með stýrt þeirri nefnd sem féll frá því að koma hér inn með frv. um víðtæka greiðsluaðlögun. Ég held að hv. þm. skuldi þingheimi það í ræðustól á eftir að gera okkur ítarlega grein fyrir því af hverju fallið var frá þeirri leið. Og ég vil spyrja hv. þm. sem formann þessarar nefndar, sem hlýtur að hafa farið yfir öll möguleg úrræði sem fyrir hendi eru til að létta skuldir heimilanna, hvort hv. þm. hafi ekki farið yfir þá miklu skattlagningu sem er á skuldir einstaklinga af hálfu ríkissjóðs, að ríkissjóður skuli á sl. þremur árum hafa haft 8--10 milljarða í alls konar gjöld og ekki síst stimpilgjöld. Ég spyr hv. þm. um það. Var ekki ástæða til þess að skoða þá hlið málsins frekar en fara þessa leið sem við höfum verið að ræða og ég tel að muni mjög litlu skila til að bæta skuldastöðu heimilanna?