Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 17:03:48 (3767)

1996-03-11 17:03:48# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[17:03]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Eftir stendur, hv. 15. þm. Reykv., að jafnaðarmenn fóru með þennan málaflokk í átta ár og gerðu ekkert, eins og hann segir sjálfur, nema að skipa nefndir. Síðan kemur nýr félmrh. og þá er farið að framkvæma hlutina. Eða er það kannski svo að það hafi ekki tekið átta ár að finna leiðir til úrlausnar heldur hafi vandinn orðið til vegna þessara átta ára sem jafnaðarmenn fóru með þessi mál? Á kannski að skilja ræðu hv. þm. á þann veg? Ég hygg að það væri ráðlegt fyrir hina málsnjöllu talsmenn jafnaðarmannaflokkanna að fara með meiri hógværð í þessa umræðu en þeir hafa gert.