Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 17:19:38 (3771)

1996-03-11 17:19:38# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[17:19]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég féllst á þá skoðun nefndar hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar að skynsamlegra væri að fitja svona upp og flytja frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt sem ég tel að sé ákaflega mikilvægt og mjög mikil stefnubreyting í innheimtumálum ríkissjóðs og réttaraðstoð við gerð nauðasamninga. Það er skynsamlegra að prófa þá leið fyrst. Það er hugsanlegt að þessar leiðir, ef þær gefast ekki nægilega vel og stemmning verður fyrir því þegar reynsla er fengin á þær, að fara út í að setja lög um greiðsluaðlögun eftir að betri og meiri reynsla er fengin á það á Norðurlöndum. Það var raunverulega frá nágrannalöndum okkar sem við fengum ágæt frv. um greiðsluaðlögun, en þar hafa slík lög verið í gildi um eitthvert árabil, og lásum þau og skoðuðum vandlega. En við fengum ákveðnar viðvaranir líka með þessum frv. þannig að greiðsluaðlögun sem ætti að heppnast getur ekki verið bein þýðing á þeim lögum sem þar hafa verið sett. Ég held að það sé skynsamlegra að sjá hvernig unnið er eftir þeim og síðan að meta það og ef okkur þykir þörf á að setja einhvern tímann síðar tillögur um greiðsluerfiðleika.

Varðandi það hvað tekur við. Ég lít svo á að ráðgjafarstöðin sé gífurlega mikilvægt fyrsta skref. Frv. sem ég tíundaði og breytingar á lögum sem gerðar hafa verið eru allt saman markverð skref sem leysa einhvern hluta af vandanum. Því miður er ég sannfærður um að það er ekki hægt að bjarga öllum með þessum úrræðum. Það eru allmargir í svo hrikalegri stöðu að því miður er ekkert hægt að gera annað en að fara í gjaldþrot með þeim hremmingum sem því fylgir. En takmarkið með þessari vinnu er að reyna að fækka eins og mögulegt er þeim einstkalingum sem þurfa að ganga í gegnum gjaldþrot.