Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 17:28:06 (3775)

1996-03-11 17:28:06# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[17:28]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur nú nokkurt vatn runnið til sjávar síðan 1994 og reynsla hefur fengist þar sem greiðsluaðlögun hefur verið reynd. Ég er ekki að fordæma greiðsluaðlögun og er að mörgu leyti mjög skotinn í þeirri hugmynd. Ég held hins vegar að það sé réttari aðferð að fara fyrst á flot með þetta fyrirkomulag sérstaklega vegna þess að ég held að nýmæli um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt fylgi með. Ég held að þetta sé heppilegri niðurstaða en þær hugmyndir sem ég hef séð um greiðsluaðlögun þó ég telji að þær hugmyndir þurfi að vera til skoðunar líka í framtíðinni.

Hv. 13. þm. Reykv. minntist á húsnæðismálafrv. fyrir jólin. Ja, sá var nú rekinn til baka. Frv. var flutt eins og nefnd undir forustu hv. þm. Magnúsar Stefánssonar lagði til. Ég fagnaði því og enginn meira en ég að hv. félmn. vildi rýmka ákvæði frv. Ég kom til nefndarmanna í félmn. með nýja grein sem þeir tóku við og gerðu að sinni. Mér hefði aldrei dottið í hug í fyrstu lotu að fara fram á það við þingið að fá það reglugerðarvald sem ég fékk með því frv. Varðandi þá reglugerð sem hv. þm. spurði um og nýmæli í henni er best að doka við og bíða eftir því að reglugerðin komi út og þá kemur það í ljós.