Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 17:59:51 (3780)

1996-03-11 17:59:51# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[17:59]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. framsóknarmönnum hér inni tekst ekki enn að útskýra fyrir mér af hverju horfið er frá greiðsluaðlögun og hvað hafi svona mikið breyst í íslensku umhverfi frá því að þeir tóku við að ekki sé hægt að taka upp greiðsluaðlögun. Við höfum það fyrir okkur að hin Norðurlöndin hafa tekið þetta upp. Danmörk hefur verið með þetta síðan 1984 og Noregur síðan 1993 og í skýrslu þeirrar nefndar sem ég vitnaði til og starfaði í nokkra mánuði að þessu máli, kemur einmitt fram að það sé mjög góður árangur af þessari greiðsluaðlögun og fjöldi manns hafi sótt um og nýtt sér þessi úrræði. Það er ekkert sem kemur fram í þessari skýrslu eins og hv. þm. nefndi að hér sé um hægvirk og dýr úrræði að ræða.

Hv. þm. nefndi það sem ein rök að þetta gagnaðist of fáum. Hvað með það frv. sem við erum að ræða hér? Fyrst hv. þm. bendir á það sem ein rök í málinu að greiðsluaðlögunin gagnist of fáum hlýtur hann að hafa velt því fyrir sér hve mörgum gagnast þá þetta úrræði. Hv. þm. hlýtur að hafa velt því fyrir sér.

Og í lokin, af hverju ég hafi ekki flutt þetta mál inn í þingið. Nefndin skilaði niðurstöðu í maí 1994. Ég hvarf úr ráðherrastól í júní 1994. Það er meginskýringin. En á þeim tíma sem þetta mál byrjaði í mínu ráðuneyti 1993 var unnið mjög ötullega að því að safna saman öllum nauðsynlegum upplýsingum um málið þannig að það var raunverulega tilbúið til lagasetningar í maí 1994. Mér finnst mjög sérkennilegt, og ég tek undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni og fleirum sem hér hafa talað, af hverju ekki er birt niðurstaða nefndar hv. þm. í þessu máli. Ég er að vitna í skýrslu upp á sex kafla og 20 eða 30 blaðsíður sem lá fyrir um þetta mál sem mælti öll með þessu úrræði. Ég held að nefndin sem fær þetta til úrlausnar eigi kröfu á því að sjá nefndarálitið og rök nefndarinnar fyrir því að þessi leið er ekki farin.