Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 18:28:06 (3785)

1996-03-11 18:28:06# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[18:28]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það gætir einhvers misskilnings að þessu leyti í máli hv. 8. þm. Reykv. Ég tók undir með hv. 4. þm. Suðurl. sem stýrði þessu nefndarstarfi og reyndar komu þau sjónarmið einnig fram hjá hæstv. félmrh. að eðlilegt væri að fá reynslu af þessari skipan mála og þá gleggri reynslu frá Norðurlöndunum áður en frekari umfjöllun yrði um greiðsluaðlögun, ég er ekkert að útiloka það að hún geti á síðari stigum komið til umfjöllunar. Ég ítreka á hinn bóginn að ég held að hér sé stigið skynsamlegt skref, það sé fundin aðferð sem með tiltölulega skjótvirkum og skilvirkum hætti geti komið ýmsum þeim sem eru í greiðsluerfiðleikum til aðstoðar. Og það er auðvitað það sem mestu máli skiptir, það er verið að koma í framkvæmd ráðstöfunum sem geta gagnast ýmsum þeim sem búa við þessa erfiðleika.

Að því er varðar svo málsmeðferðina og nefndina ítreka ég það sem ég hef áður sagt að það má færa þá vinnu út með öðrum hætti en sett er fram í frv. og ég hygg að við slíkar aðstæður væri heppilegast að nefndin sjálf tæki endanlega ákvörðun í málinu sem væri síðan hægt með stjórnsýslukæru á grundvelli stjórnsýslulaga að skjóta til æðra stjórnvalds. Þá yrði nefndin eins konar lægra stjórnvald og ekki hluti af dómsmrn.