Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 18:41:54 (3790)

1996-03-11 18:41:54# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[18:41]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sat í þeirri nefnd sem vann að greiðsluaðlögun heimilanna ásamt hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, sem var formaður nefndarinnar. Ég vil ekki láta þessa umræðu líða án þess að segja örfá orð sem eru þá í andsvari. Ég vil lýsa furðu minni á því hvað stjórnarandstaðan og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafa lítið getað séð jákvætt við það sem verið er að gera með þessum aðgerðum. Ég held að það sé engin spurning, og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur eflaust séð það þegar hún var í sínu ráðuneyti, að skuldir heimilanna eru svo margs konar að á þeim verður að taka með mismunandi hætti. Eins og við sáum þetta í nefndinni voru skuldirnar kannski flokkaðar niður í fimm meginþætti, þ.e. veðskuldir, sem eru skuldir sem ekki verða teknar af viðkomandi veðum með neinum lögum, enda mundum við setja allt fjármálakerfi landsmanna í uppnám ef við færum út í slíkar aðgerðir. Þær raunverulegu breytingar sem mér finnst standa upp úr í þessu eru fyrir það fyrsta að skattaskuldir skuli geta verið sveigjanlegar með því frv. til laga sem verður lagt hér fram um tekjuskatt og eignarskatt. Eins eru meðlagsskuldir samkvæmt nýju frv. umsemjanlegar við Innheimtustofnun, bæði má framlengja þær eða jafnvel fella niður við mjög erfiðar félagslegar aðstæður. Síðan er svo stóra málið, Ráðgjafarstofnun heimilanna, sem mun aðstoða allt þetta fólk sem svo sannarlega þarf á aðstoð að halda við að meta hvernig það getur samið um skatta- og meðlagsskuldir við ríkið sjálft og við veðhafa ef um sölu eigna er að ræða. Ég held að með þessum frv. þremur hafi verið stigið verulega mikilvægt skref til að koma til móts við skuldugt fólk og það sé sannarlega þess virði að sjá hvort það gagnast ekki betur en sú leið sem Norðurlandaþjóðirnar hafa farið. Ég held að við getum verið ánægðir með þá niðurstöðu sem hér er komin á vegum ríkisstjórnarinnar og þessarar nefndar. Því er full ástæða til að fagna þessu og vonast til að það gagnist þeim sem á þurfa að halda.