Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 18:49:01 (3794)

1996-03-11 18:49:01# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[18:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Sumir þingmenn hafa talað um að hér væri ekki um félagslegt úrræði að ræða. Við skulum skoða þetta nánar. Þetta er að vissu leyti réttarfarslegt úrræði enda flytur hæstv. dómsmrh. málið. En það kemur einstaklingunum til góða og er að því leyti félagslegt í eðli sínu. Nú ætla ég að biðja hv. þm. að hugsa bara með sér. Ef þeir væru í miklum fjárhagsörðugleikum og sæju að þeir yrðu að grípa til sársaukafullra aðgerða hvort mundu þeir þá heldur kjósa að ganga í gegnum greiðsluaðlögun eða nauðasamninga? Ég hef verið að velta þessu fyrir mér. Ef ég væri í slíkum vandræðum er ég ekkert viss um að ég mundi síður kjósa að fara í nauðasamninga en að lenda í fimm ára gjörgæslu. Þetta er kannski matsatriði en ég held að menn megi ekki vera með neina fordóma í þessu efni.

Framsfl. er síður en svo á móti greiðsluaðlögun og eins og hefur margoft komið fram og m.a. hjá hæstv. dómsmrh. þá getur það vel passað sem viðbótarúrræði ásamt þeim úrræðum sem við erum að boða hér. Þetta frv. er eitt af sex frv. sem verða flutt af fjórum ráðherrum og öll eru félagslegs eðlis og til þess ætluð að hjálpa fólki í greiðsluerfiðleikum. Ráðgjafarstofan og sex ný lagaúrræði eru miklu líklegri til árangurs en greiðsluaðlögun ein og sér.

Ég tel að ríkisstjórnin hafi unnið vel að þessu máli og það sé góð samstaða um úrræðin. Þetta eru víðtækari og markvissari úrræði gegn skuldavanda heimilanna en nokkur önnur ríkisstjórn hefur komið með sem ég hef upplifað og hef ég þó verið hér talsverðan tíma.

Fólkið í landinu virðist ekki vera á sama máli og hv. þm. sem eru með svikabrigsl á Framsfl., að Framsfl. sé alltaf að svíkja og svíkja og svíkja. Fólkið í landinu virðist ekki vera á sama máli. Ef eitthvert mark má taka á skoðanakönnunum þá vill svo til að Framsfl. bætir sig með hverri skoðanakönnuninni eftir aðra á meðan fylgi sumra er nánast horfið.