Innheimtustofnun sveitarfélaga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 18:57:37 (3797)

1996-03-11 18:57:37# 120. lþ. 104.11 fundur 356. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (samningar við skuldara) frv. 71/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[18:57]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það eigi að líta þannig á þessa kostnaðarumsögn frá fjmrn. að það sé ekki um nýjan kostnað að ræða. Framkvæmd þessara laga kemur ekki til með að hafa í för með sér kostnað í sjálfu sér. Það er verið að fella niður skuldir sem menn líta svo á að séu tapaðar. Dráttarvextirnir hafa verið umsemjanlegir en margir hafa ekki sinnt um að semja um dráttarvextina vegna þess að þeir hafa gjörsamlega gefist upp. Ég veit ekki hvort dráttarvextir eru séríslenskir en þeir eru a.m.k. ekki tíðkaðir um allan heim. Ég átti þess kost einu sinni að standa í samningum um byggingu álvers vestur í Bandaríkjunum, þ.e. við Bandaríkjamenn sem vildu byggja álver á Keilisnesi. Í þeim samningum fórum við Íslendingarnir að tala um dráttarvexti. Þeir horfðu á okkur furðu lostnir og vissu ekki hvað þetta var þetta íslenska fyrirbrigði dráttarvextir var ef til vanefnda kæmi á samningi. Ég held að dráttarvextir séu í eðli sínu mjög umdeilanlegt fyrirkomulag.