Innheimtustofnun sveitarfélaga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 19:01:11 (3800)

1996-03-11 19:01:11# 120. lþ. 104.11 fundur 356. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (samningar við skuldara) frv. 71/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[19:01]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu að því er virðist saklaust frv. um Innheimtustofnun sveitarfélaga. En er það svo? Er það virkilega rétt skilið hjá mér að með frv. eigi að heimila meðlagsgreiðendum að afskrifa höfuðstól meðlagsskulda sinna? Ætlar löggjafinn að fara að mismuna meðlagsgreiðendum? Ætlar löggjafinn að refsa þeim meðlagsgreiðendum sem hafa staðið í skilum, oft með erfiðismunum, og verðlauna þá sem hafa trassað meðlagsgreiðslur með því að afskrifa höfuðstól meðlagsskulda?

Þetta frv. hefur kallað á hörð viðbrögð í þjóðfélaginu, bæði frá körlum sem hafa staðið í skilum með sínar meðlagsgreiðslur og ekki síður frá konum sem fá meðlagsgreiðslur vegna barna sinna. Þær eru fleiri en ein, konurnar sem í mín eyru segjast munu setjast að í félmrn. og krefjast sambærilegrar niðurfellingar skulda og barnsfeðurnir fá sem ekki hafa staðið í skilum, ef þetta frv. verður lögfest.

Meðlag er núna langt undir helmingi framfærslukostnaðar barns og það hefur reynst mjög erfitt að fá það hækkað í þjóðfélagi þar sem karlar ráða ríkjum. Það er því algert hneyksli ef Alþingi ætlar að sameinast um það í þokkabót að afskrifa höfuðstól áfallinna meðlagsgreiðslna. Ég tel hins vegar að það komi vel til greina eins og hér hefur verið rætt að Innheimtustofnun sveitarfélaga verði heimilt að semja við viðkomandi meðlagsskuldara um að greiða skuldir sínar á lengri tíma eða skuldbreyta eða breyta dráttarvöxtum og þessum gjöldum. En afskriftir á höfuðstól koma alls ekki til greina að mati okkar kvennalistakvenna. Því vil ég spyrja hæstv. félmrh. hvort hann hafi hugleitt þá mismunun sem frv. mun leiða til, í fyrsta lagi gagnvart meðlagsgreiðendum sem staðið hafa í skilum og í öðru lagi gagnvart mæðrum sem ekki hafa komist hjá því að standa við sín útgjöld vegna barna viðkomandi meðlagsgreiðanda. Hvernig er með jafnræðisregluna? Á hún kannski við í þessu tilviki?

Þetta frv. er að mínu mati hneyksli og vonandi ber Alþingi gæfu til að breyta því í meðförum eða fella það þó að um stjfrv. sé að ræða. Það þarf að gera átak í því að auka samábyrgð feðra vegna barna sem ekki eru í þeirra forsjá. Þetta er skref í þveröfuga átt, skref sem getur orðið til þess að þeir feður sem nú standa í skilum með sínar meðlagsgreiðslur hætta því í von um að fá afskrifaðan höfuðstól skuldanna. Því miður finnst mér líklegt að þetta verði afleiðingin af lagasetningu af þessu tagi þrátt fyrir þann yfirlýsta tilgang frv. að auka innheimtuhlutfall Innheimtustofnunar sveitarfélaga til frambúðar og stækka greiðendahópinn. Það markmið er vissulega gott. Fram kemur í greinargerðinni að Innheimtustofnun á 5,5 milljarða í útistandandi skuldum eða 515 þús. á hvern skuldara að meðaltali. Þetta eru verulegar háar upphæðir og ljóst að það þarf mikið að koma til. En ég tel að þetta frv. gangi ekki í þessu formi.

Þó að það sé gert að skilyrði í frv. að afskriftir af höfuðstól skuldar komi ekki til fyrr en eftir að viðkomandi hafi staðið við lækkaðar mánaðargreiðslur í þrjú ár, tel ég að það sé mjög hættulegt gagnvart öðrum meðlagsgreiðendum að afskrifa þessar skuldir og það komi ekki til greina. Einnig má spyrja: Ef viðkomandi getur staðið við skuldirnar í þrjú ár, hvers vegna ætti hann þá ekki að geta það áfram?

Það er líka einkennileg tilviljun að það séu skuldir vegna meðlagsgreiðslna sem nú á að heimila afskriftir á. Eru þessar skuldir léttvægari en aðrar skuldir? Á sama tíma og þjóðin er að reyna að sameinast um að það beri að auka foreldraábyrgð og auka ábyrgð feðra í uppeldi barna er löggjafinn að koma með frv. sem gerir þá óábyrga gagnvart sínum barneignum.

Aðeins um Innheimtustofnunina. Það er ljóst að hún er í vanda. Ég held að það verði að finna aðrar leiðir til úrbóta en þá sem lögð er til í þessu frv. Að lokum vil ég vekja athygli á ummælum hv. þm. Kristjáns Pálssonar í síðasta máli sem tengist þessu þar sem hann talaði um Innheimtustofnun sveitarfélaga og sakaði hana um að hafa komið meðlagsgreiðendum í mikil vandræði. Já, ef það er Innheimtustofnunin sem á sökina á meðlagsskuldum þá er ekki nema von að stjórnarþingmenn hjálpist til við lagasetningu af þessu tagi. Þessu verður að breyta. En sú lausn sem hér er lögð til er siðferðilega óverjandi.