Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 13:54:34 (3813)

1996-03-12 13:54:34# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:54]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins örstuttar athugasemdir vegna ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan. Eins og fram hefur komið leggur allshn. til nokkrar breytingar á frv. og meðal þeirra er tillaga um að manni verði heimilt að kenna sig til beggja foreldra eða bera ættarnafn sem hann á rétt á til viðbótar því að kenna sig til föður eða móður. Það er rétt að undirstrika að hér er einungis um heimildarákvæði að ræða en ekki skyldu. Hv. þm. benti á það sem sína skoðun í þessu efni að ákveðin skylda yrði um að kenna sig til beggja foreldra. Þetta atriði var rætt í allshn. en hlaut ekki undirtektir.

Ég er þess fullviss sjálf að meginþorri fólks vill aðeins kenna sig til annars foreldris í samræmi við hinn forna nafnasið okkar Íslendinga. Hins vegar er í tillögum okkar lagt til að hinum, sem vilja kenna sig til beggja foreldra, verði það heimilt. Það er einnig í samræmi við það markmið sem stefnt er að með frv., að auka frelsi í nafngiftum en ekki að leggja auknar skyldur á fólk.