Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 14:41:27 (3819)

1996-03-12 14:41:27# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:41]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að fjalla virðulega um þetta mál, en það er auðvitað ósköp skiljanlegt að hv. þm. Svavar Gestsson hafi áhuga á þessu, enda fyrrv. menntmrh.

Ég vil ítreka að það var ítarlega fjallað um þetta mál í allshn. og málið var þar að auki rætt í þingflokkum, þar á meðal þingflokki Alþb. þar sem bæði Drífa Pálsdóttir og Halldór Ármann Sigurðsson mættu á fund þingflokksins eftir því sem ég best veit og kynntu þetta mál.

Það er skiljanlegt að það séu skiptar skoðanir um mannanöfn og löggjöf í því efni, en ég tel rétt að þessar breytingar séu gerðar, ekki síst vegna þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið.

Því hefur verið haldið fram að málið sé byggt á misskilningi, m.a. á því að mannanafnanefnd hafi oftúlkað gildandi lög. Ég held að það sé heldur vafasöm fullyrðing.

Það var einnig talað um millinöfnin. Ég hygg að ég hafi skýrt það að millinöfn hafa tíðkast um langan tíma þannig að það má segja að það sé komin nokkurs konar hefð fyrir þessum nöfnum.

Hv. þm. Hjálmar Jónsson svaraði þessu atriði varðandi ranga lagatúlkun þeirrar nefndar sem samdi frv. Ég held að það sé alveg skýrt sem kemur fram í núgildandi lögum um mannanöfn. Þar segir í 2. gr.: ,,Eiginnafn skal vera íslenskt eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.`` Það er því engin spurning um hvað hér er átt við. Erlent nafn er óheimilt ef það hefur ekki unnið sér hefð í íslensku máli þannig að þetta er alveg skýrt að mínu mati.

Það er einnig verið að bera saman í gildandi lögum og í frv. mismunandi ákvæði. Ég skýrði það áðan í framsögu með nefndaráliti að það er tekið út úr frv. það ákvæði sem fjallaði um að nafnið skyldi vera íslenskt og vil ég ítreka það sem ég sagði áðan um það efni. Reyndar kemur þetta mjög skýrt fram í frv., t.d. á bls. 10 um 5. gr. frv.

Það var líka minnst á hættuna á því að það mynduðust og yrðu leyfilegar einhverjar stafarunur. Ég verð að segja um það, hv. þm., að ég held að við hljótum að verða að treysta því að Íslendingar muni skíra nöfnum sem eru í tengslum við íslenska mannanafnahefð. Ég hef a.m.k. ekki ástæðu til þess að ætla annað.

Enn fremur var nefnt atriði á bls. 12 í frv., þar var ákveðið misræmi að mati hv. þm. (Forseti hringir.) Þar sagði m.a. á miðri blaðsíðu, með leyfi virðulegs forseta: ,,Ákvæðið heimilar tökunöfn sem hafa unnið sér hefð jafnvel þótt vafi kunni að leika á um það hvort þau taka íslenska eignarfallsendingu.`` Þetta er skýring á fyrri mgr. þar sem segir: ,,Þessi hluti málsliðarins er samhljóða hefðarákvæði í 1. málsl. 2. gr. gildandi laga en hefur allt annað gildissvið.`` Þetta er því alveg skýrt.

Það eru auðvitað mörg fleiri atriði sem mætti víkja að, en mér þótti brýnt að koma þessum athugasemdum að strax í andsvari.