Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 14:45:09 (3820)

1996-03-12 14:45:09# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:45]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á því, sem hv. formaður nefndarinnar gerir vafalaust, að það er erfitt að rökræða um svona mál í andsvörum. En þau efnisatriði sem ég vil halda hér til haga eru þessi:

Í fyrsta lagi tel ég að tillagan um að lögleiða millinafnakerfi auki líkurnar á því að ættarnöfnin yfirtaki sviðið. Ég tel mig hafa rök Páls Sigurðssonar í þeim efnum, sem eru ekkert verri en rök annarra.

Í öðru lagi tel ég að túlkun mannanafnanefndar og ráðuneytisins á lögunum um mannanöfn hafi verið of þröng og að mörgu leyti röng miðað við efni málsins og það sem löggjafinn ætlaðist til.

Í þriðja lagi tel ég hins vegar að sú skilgreining á eiginnafni, að það verði bara farið eftir því hvort nafnið tekur íslenskri eignarfallsendingu eða ekki, sé ekki nægilega örugg. En að lokum, hæstv. forseti, eins og ég endurtók áðan og ég tek eftir að hv. þingmenn hafa ekki tekið eftir, varðandi einstakar breytingartillögur, varðandi t.d. réttinn til að kenna sig við föður eða móður, þá er það utan við þessi gagnrýnisatriði. Það er mál sem ég áskil mér allan rétt til að koma að síðar. En þetta voru fjögur grundvallaratriði sem ég hreyfði áðan og endurtek núna vegna þess að mér fannst að hv. þm. hefði ekki gert sér grein fyrir því að þetta voru aðalatriði míns máls.