Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 14:47:09 (3821)

1996-03-12 14:47:09# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:47]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þess að hér hefur verið vísað til skoðunar Páls Sigurðssonar prófessors, þá vil ég að það komi skýrt fram, og það er tekið fram í nefndaráliti frá allshn., að bæði Páll Sigurðsson prófessor og Erlendur Jónsson dósent komu á fund nefndarinnar og að sjálfsögðu liggja öll gögn í þessu máli fyrir nefndinni og nefndarmenn gátu kynnt sér margvísleg gögn í málinu.

Ég er í sjálfu sér sammála því að það sé erfitt að koma með miklar rökræður í andsvörum, en tel þó rétt að ítreka það sérstaklega að meginástæða þeirrar miklu gagnrýni sem fram hefur komið á gildandi lög er að lögin séu of ströng. M.a hefur það verið gagnrýnt að lögin heimili ekki millinöfn, en það er svo að fyrir gildistöku gildandi laga tíðkaðist það að börnum væri gefin millinöfn við skírn án þess að lagaheimild væri fyrir slíkum nafngjöfum og þau voru átölulaust skráð í þjóðskrá þannig að millinöfnin eru því orðin eins konar hefð í sumum fjölskyldum sem þykir mjög svo sárt að geta ekki gefið nýjum fjölskyldumeðlimum þessi nöfn fyrir utan alla hina einstaklingana sem þess óska. Þar að auki er stefnt að því með upptöku millinafna verði dregið úr notkun ættarnafna þar sem lagt er til að heimilt verði að breyta ættarnafni í millinafn og kenna sig til föður eða móður eða þeirra beggja í samræmi við hinn forna íslenska kenninafnasið.

Hv. þm. hefur verið tíðrætt um skoðanir okkar í allshn. í þessu efni og vil ég segja það fyrir sjálfa mig að ég tel mig frekar íhaldssama í þessum efnum. Ég hef verið ánægð með okkar íslensku mannanafnahefð og tel mikilsvert að við hugum að íslenskri menningu, en hins vegar skil ég vel tilfinningar fólks og sárindi út af þeim takmörkunum sem hafa verið í gildandi lögum og vil taka tillit til þess.