Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 16:18:49 (3832)

1996-03-12 16:18:49# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[16:18]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hlý orð í minn garð langar mig aðeins til að staldra við það atriði sem mér finnst ekki vera rætt um hérna og það er dálítið skrýtið að menn skuli ekki ræða. Það er í fyrsta lagi að menn skuli ekki mótmæla því með rökum að framkvæmdin hafi verið of þröng. Í öðru lagi það sem er aðalatriðið í máli mínu að eignarfallstakmörkunin á eiginnafnaskilgreiningunni sé vafasöm og svo í þriðja lagi eru það millinöfnin sem menn geta út af fyrir sig haft allt aðra skoðun á en ég og skiptir engu máli. Andstaða mín við málið eins og það liggur fyrir stafar heldur ekki af því að ég sé maður boða og banna. Ég vísa því algjörlega á bug að málflutningur minn sé settur til hliðar með klisjum af því tagi, það gerir hv. þm. heldur ekki og ég segi það líka út af hennar orðum að margt af hennar rökstuðningi varðandi málið er lýtur að jafnréttatriðum. Ég er algjörlega sammála þeim sjónarmiðum. Ég tel að þarna séu fyrst og fremst tvö efnisatriði. Annars vegar að eignarfallstakmörkun eiginnafnaskilgreiningarinnar sé á tæpu vaði og hins vegar að millinafnakerfið ýti undir að ættarnafnaflóðið gangi yfir okkur. Þetta eru mínar aðalröksemdir í þessu máli.