Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 16:31:41 (3836)

1996-03-12 16:31:41# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[16:31]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þakka hv. formanni allshn. fyrir gott starf í nefndinni og það að leiða þetta mál til þeirra lykta sem ég vonast til að við sjáum nú hilla undir.

Ég tel nauðsynlegt að koma rökunum fyrir því að miða við eignarfallið að við þessa umræðu. Þau eru fyrst og fremst þau að fyrir eru í málinu fjöldi nafna og annarra orða sem hafa ekki neina aðra endingu en einmitt eignarfallsendinguna. Það má taka dæmi af svo sjálfsögðu kvenmannsnafni sem Rut, um Rut, frá Rut, til Rutar. Það er sem sagt eignarfallsendingin sem sýnir að nafnið beygist.

Ég vil koma að því stórmáli sem hér er líka á ferðinni gagnvart mannréttindum þeirra sem eru af erlendu bergi brotnir, en koma til Íslands og gerast Íslendingar. Þeir sem hingað til hafa gerst íslenskir ríkisborgar hafa þurft að breyta nafni sínu, en gert er ráð fyrir því í frv. að þeir fái að halda fullum nöfnum sínum. Það er ekki gerður greinarmunur á þeim sem bera ættarnöfn eftir því hvort þeir eru innfæddir Íslendingar eða Íslendingar af erlendu bergi brotnir. Þetta er mikilvægt mannréttindaatriði og má taka dæmi af t.d. tveimur Jensenum, annar flutti til Íslands frá Danmörku fyrir hundrað árum og hann og hans niðjar hafa fengið að bera ættarnafnið Jensen, en niðjar Jensens sem flutti til Íslands fyrir tíu árum geta ekki borið ættarnafnið. Þarna er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera jöfnuð á.

Hv. þm. Svavar Gestsson kom að því í andsvari hvort menn vildu ræða það hvort lögin og túlkun þeirra hefði verið of þröng fyrst eftir að þau voru sett 1991. Ég get tekið undir það með hv. þm. Svavari Gestssyni að það var hvort tvegga. Lögin um íslensk nöfn voru þrengd frá því sem var í framkvæmd fyrir 1991. Þau voru líka túlkuð of þröngt. Mitt sjónarmið er það að sú þrönga túlkun hafi vegið þyngra þegar óánægja blossaði upp í þjóðfélaginu. Ágreiningsmál, vandamál og óþægindi margra fjölskyldna varð til þess að ekki var um annað að ræða en að taka lögin upp og endurskoða þau almennilega. Ég hygg að það hafi verið gert og ég vil leyfa mér að þakka þeim ágætu sérfræðingum sem sömdu frv., Drífu Pálsdóttur og Halldóri Ármanni Sigurðssyni, sem auk mín unnu að því máli og síðan allsherjarnefndarmönnum fyrir þeirra ágætu vinnu í þingnefndinni.