Gatnagerðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 16:52:23 (3838)

1996-03-12 16:52:23# 120. lþ. 105.5 fundur 106. mál: #A gatnagerðargjald# (heildarlög) frv. 17/1996, Frsm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[16:52]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félmn. um frv. til laga um gatnagerðargjald.

Félmn. hefur haft þetta mál til meðferðar frá því fyrir jól og hefur eytt allverulegum tíma í það, enda nokkur atriði sem nefndin kaus að kanna sérstaklega. Niðurstöðu nefndarinnar er að sjá á nefndaráliti á þskj. nr. 675 og í breytingartillögum á þskj. 676. Nefndin leitaði fyrst og fremst til sveitarfélaganna um álit á þessu frv. og hafði jafnframt í huga það sem fram kom í framsöguræðu hæstv. félmrh. þar sem hann beindi því til nefndarinnar að skoða sérstaklega þann aðlögunartíma sem sveitarfélögunum yrði veittur að nýjum lögum.

Þær breytingartillögur sem nefndin leggur til að gerðar verði á frv. eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði um skyldu ráðherra til að setja reglugerð um endurgreiðslu gatnagerðargjalds verði fellt brott úr 2. mgr. 1. gr. frv. og í þess stað vísað til þess í 1. mgr. 6. gr. að ráðherra skuli setja slíka reglugerð. Þarna er einfaldlega verið að koma í veg fyrir ákveðna tvítekningu í lögunum þar sem þessi reglugerð var nefnd tvisvar sinnum.

Í öðru lagi er með breytingum á 2. gr. gerð tilraun til að skilgreina nánar til hvers skuli verja gatnagerðargjaldi sem innheimt er samkvæmt lögunum og m.a. eru tekin af tvímæli um að lagnir vegna götulýsingar geti heyrt þar undir. Ég undirstrika þetta, hæstv. forseti, geti heyrt þar undir því að það er ekki meiningin að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur í einstökum sveitarfélögum sem eiga sjálf rafveitur eða hitaveitur og hafa látið þær standa straum af kostnaði við lagnir vegna götulýsingar og lýsinguna sjálfa. Það kom hins vegar fram við rannsókn nefndarinnar á málinu að það hefur víða orkað tvímælis hvort heimilt sé að telja götulýsingu til lagna. Víða hefur það verið framkvæmt þannig að nefndinni fannst rétt að taka af öll tvímæli í lögunum um að götulýsingar geti heyrt þar undir.

Hæstv. forseti. Í þriðja lagi er lagt til að í 6. gr. frv. verði kveðið á um það að sveitarfélögin eigi að birta sérstaka gjaldskrá og þar skuli koma fram hvað sé innifalið í gjaldinu í hverju sveitarfélagi. Með þessari brtt. erum við að koma til móts við ábendingar sem umboðsmaður Alþingis hefur sett fram þess efnis að greiðendur eigi á hverjum tíma að vita fyrir hvað er verið að greiða.

Síðan er lagt til að lögin taki gildi 1. janúar 1997 og einnig að aðlögunartími fyrir sveitarfélögin verði tíu ár í stað fimm ára eins og lagt var til í frv.

Þá vil ég geta þess, hæstv. forseti, að í nefndinni urðu mjög miklar umræður um það hvort rétt væri að taka inn í lögin ákvæði þess efnis að ef sveitarfélögin ekki sinna framkvæmdum, tilskildum götulögnum innan ákveðins tíma, ættu húseigendur rétt á endurgreiðslu. Eftir miklar umræður og skoðun komumst við að þeirri niðurstöðu að þetta væri nánast óframkvæmanlegt og mundi leiða til þess að aftur yrði tekið upp það fyrirkomulag sem nú er við lýði þar sem um tvenns konar gjald er að ræða. Þá væri afar erfitt að skilgreina nákvæmlega hvaða hluta ætti að endurgreiða. Með því að innheimta aðeins eitt gatnagerðargjald er sveitarfélagið að innheimta peninga sem er varið almennt til gatnagerðar en ekki endilega í þeirri götu sem verið er að greiða fyrir. Það varð því niðurstaða nefndarinnar að þetta væri óframkvæmanlegt þó að vilji hafi staðið til þess að tryggja hag greiðenda sem allra best.

Undir þetta nefndarálit rita allir nefndarmenn. Rannveig Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins og Svanfríður Jónasdóttir sem er áheyrnarfulltrúi er samþykk áliti þessu.