Gatnagerðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 17:10:42 (3841)

1996-03-12 17:10:42# 120. lþ. 105.5 fundur 106. mál: #A gatnagerðargjald# (heildarlög) frv. 17/1996, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:10]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þm. að það er flókið og vandasamt að finna almenna reglu sem á að nota til að ákvarða gjaldið vegna þess hvað kostnaður er breytilegur. Þá eru bara við þessu að mínu viti tvær leiðir. Önnur leiðin er einfaldlega sú að vera ekki að innheimta neitt gjald vegna þess hvað torvelt er að ákvarða hvað það eigi að vera hátt. Bara af jafnræðisreglu er óviðunandi að gjaldið sé breytilegur hluti af tilkostnaði. Ef það er svona eriftt að finna út hvað gjaldið á að vera hátt, þá ættu menn ekki að hafa neitt gjald heldur almennan skatt og segja sem svo: Sveitarfélögin hafa almennan tekjustofn til að standa undir þessum kostnaði alveg eins og það stendur undir öðrum tilgreindum kostnaði með sínum skattstofnum. Ég hygg að mörgu leyti að það væri einfaldasta lausnin að afmarka almennan skattstofn til að standa undir þessum kostnaði alveg eins og menn eru að gera núna með grunnskólakostnaðinn. Þar fara menn þá leið að í stað þess að reikna út kostnaðinn fyrir hvert sveitarfélag og fyrir hvern notanda, þá taka menn það gegnum almenna skattstofn af því að hitt yrði líka mjög flókið, ekki bara pólitískur ágreiningur heldur mjög flókið að reikna það út.

Ég held að menn mundu ættu að færa sig meira yfir í það form að taka þessar tekjur í gegnum almenna skattstofna að því marki sem ekki er hægt að ákvarða þá með sæmilega traustum hætti.